Hingað mættu 82 stelpur í gær og meirihlutinn að koma í fyrsta skipti. Byrjað var á að raða stelpunum í herbergi og þær kynntar fyrir sinni bænakonu sem mun fylgja þeim og sér um að róa þær fyrir svefninn á hverju kvöldi með ýmsum sögum og bænum.

Í útiverunni var farið í ratleik um svæðið til að hjálpa stelpunum að kynnast Vindáshlíð og öllu því sem er hér í boði. Í honum eiga þær til dæmis að giska á aldur starfsmanna, semja ljóð um sína bænakonu og svara ýmsum spurningun, eins og hvað litirnir í íslenska fánanum standa fyrir. Stelpurnar stóðu sig allar með prýði og kláruðu ratleikinn með glæsibrag.

Eftir kaffi var svo boðið upp á stigahlaup, brennóleiki og vinabönd. Það er rík hefð í Vindáshlíð að spila brennó og búa til vinabönd.

Kvöldvakan var á sínum stað þar sem herbergin bjóða sjálf upp á leikrit og leik til að sýna hópnum og það er alltaf gaman að sjá hversu hugmyndaríkar og skemmtilegar stelpurnar eru. Svo er auðvitað mikið sungið á kvöldvökunum. Eftir kvöldvökuna er farið beint í kvöldkaffi og þaðan í hugleiðingu þar sem stelpunum var sagt frá hvernig þær geta alltaf leitað til Jesú og að hann hjálpar okkur að bera alla þá byrði sem hvílir á okkur.

Algjör ró var komin á húsið kl 11.30 og stelpurnar flestar sofnaðar fyrr enda uppgefnar eftir frábæran fyrsta dag í hinni fögru Vindáshlíð.