Tíminn hefur aldeilis læðst uppað okkur hérna í Hlíðinni fríðu og öllum að óvörum er nú komið að síðasta heila degi flokksins, veisludegi.

Nú þegar hefur verið spilaður úrslitaleikurinn í brennó og stóðu stúlkurnar í Furuhlíð uppi sem sigurvegarar. Þær munu svo spreyta sig gegn foringjunum í fyrramálið. Í þessum töluðu orðum er svo allt á fullu á herbergisganginum þar sem stelpurnar keppast við að undirbúa göngugötu og vinardekur sem hefst von bráðar. Þá býður hvert herbergi upp á eitthvað dekur sem hinar stelpurnar í flokknum fá tækifæri til að sækja. Þar eftir er stefnt á hárgreiðslukeppni og í kvöld verður auðvitað snæddur veislumatur í veisluskreyttum matsalnum, áður en foringjarnir stíga á svið á kvöldvökunni og sýna leiklistarhæfileika sína.

Í gær var úrhellisrigning meirihluta dagsins svo við glöddumst allar mikið yfir að fá að verja deginum að mestu leyti innandyra. Dagurinn byrjaði á útsofi til klukkan tíu þar sem óvænt (og mjög fjörugt) náttfatapartý hafði haldið okkur öllum á fótum til miðnætti kvöldið áður. Fyrir hádegismat var spilaður brennó, gerð vinabönd og keppt í langstökki án atrennu. Eftir hádegi var svo hafist handa við að undirbúa guðsþjónustuna sem var haldin eftir kaffi. Leikhópur æfði leikrit um miskunnsama samverjann og setti það á svið í guðsþjónustunni, tónlistarhópur æfði nokkur falleg lög og hópur stelpna annaðist skreytingar, bænir og almennan undirbúning.

Í gærkvöldi var hefðbundin kvöldvaka þar sem tvö herbergi sýndu atriði og í lok kvöldsins hlustuðum við á hugleiðingu um það hversu einstök smíði við öll erum.

Ég minni foreldra á að rútan verður á Holtavegi 28 á morgun klukkan 16:00. Eitthvað hefur borið á því að stelpurnar vilji kaupa Vindáshlíðar boli og töskur, en ekki verið með pening fyrir því. Við ætlum því að taka nokkur eintök af hvoru tveggja með á Holtaveginn og hægt verður að kaupa það þar á morgun fyrir þá sem hafa áhuga á því. Bolir kosta kr. 2.000 og töskur kr. 1.500.

Þeir foreldrar sem ætla að sækja börnin sín hingað uppeftir, ég mæli með því að þið komið ekki fyrr en eftir hádegi. Rúturnar fara héðan klukkan 15, svo gott væri að allir hefðu í huga að sækja börnin þó ekki síðar en það.

En þá er um að gera að kíkja á göngugötuna niðri.

Við biðjum að heilsa heim.

Tinna Rós, forstöðukona.