Þá gefst loksins smá svigrúm til að segja fréttir af okkur héðan úr Hlíðinni fríðu en stíf dagskrá undanfarna daga hefur því miður ekki boðið upp á mikinn fréttaflutning.

Á mánudagsmorgun mættu hingað 60 spenntar unglingsstúlkur, tilbúnar í þennan óvissu- og unglingaflokk. Við val á þema flokksins má segja að við höfum ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, en heimurinn var tekinn þar fyrir. Hver dagur er þannig tileinkaður sinni heimsálfunni og útfrá umræðu um heimsálfuna höfum við aðeins rætt um ýmis samfélagsleg vandamál í leiðinni. Maturinn hefur svo líka fléttast inn í þemað og eldhúsið verið á haus við alls kyns framandi eldamennsku.

Fyrsti dagurinn var tileinkaður Asíu. Eftir að stelpurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjunum sínum og borðað asískan núðlurétt hittumst við í kvöldvökusalnum og fræddumst aðeins um heimsálfuna og þær venjur sem þar eru. Umræðurnar leiddust svo út í samtal um mansal, sem er auðvitað mikið vandamál í Asíu og víðar. Það skapaðist virkilega góð umræða um málefnið og greinilegt að stelpurnar eru margar hverjar mjög meðvitaðar um þetta vandamál. Eftir spjallið fóru allir út í hermannaleik, Vatnarskógar-style. Að sjálfsögðu var svo skellt sér í brennó og íþróttakeppnir fyrir kvöldmat (við gríðarlega kátínu). Á kvöldvökunni létu stelpurnar sköpunarhæfileikana njóta sín í Vindáshlíð next top model og hönnuðu fatnað úr ruslapokum. Þegar fatnaðurinn var tilbúinn leituðu þær svo að sinni innri fyrirsætu og gengu sýningarpall í fötunum. Eftir hugleiðingu var svo settur upp leikur þar sem þær þurftu að fara um svæðið og leita að sinni bænakonu og fara með henni inn á bænaherbergi.
Þær voru nú ekki sáttar við að þurfa að fara svo „snemma“ að sofa á fyrsta kvöldi, þegar við ætluðum að hafa ró á miðnætti. Það tók þær þó ekki langan tíma að jafna sig á því þegar foringjarnir hlupu eftir ganginum fljótlega eftir að bænaherbergi lauk og tilkynntu um náttfatapartý. Það var því mikið húllumhæ í setustofunni í góðan klukkutíma í viðbót og eftir að prinsessa, draumaprins og dreki höfðu mætt á svæðið og gefið þeim frostpinna fóru þær sáttar og þreyttar í bólið.

Á þriðjudaginn tókum við svo Afríku fyrir. Sólin sá sóma sinn í því að fylgja þemunum okkar eftir og gaf okkur alvöru Afríku-veður, sem hefur haldist hér síðan. Við fengum frábæra heimsókn frá Helgu Vilborgu Sigurjónsdóttur, sem bjó með fjölskylduna sína í Eþíópíu í fimm ár, þar sem hún og maðurinn hennar störfuðu sem kristniboðar. Hún fræddi stelpurnar um lífið sitt þar, sýndi myndir og myndbönd úr sínu einkasafni, kenndi afríska söngva og fór aðeins yfir amharíska stafrófið. Hún var svo til viðtals að fræðslunni lokinni og fjöldi stelpna sem nýttu sér tækifærið og spjölluðu við hana um allt milli himins og jarðar. Mikil og góð umræða skapaðist í kjölfarið um skiptingu auðs í heiminum.
Eftir hádegismat kepptu stelpurnar í Amazing Race og þreyttu ýmsar þrautir, svo sem að leita að döðlu meðal trjánna, semja klappstýrudans, fletta upp orðum í Biblíunni og leggjast í lækinn. Eftir að hafa snætt Úgandískan lambapottrétt í kvöldmat kveiktum við svo varðeld útí skógi og héldum alvöru afríska messu, utandyra. Þegar allir voru orðnir vel reyktir (af lyktinni að dæma) fórum við svo inn þar sem var búið að stilla upp í bíókvöld og kvikmyndin A Walk to Remember var sýnd. Flestar vorum við vel grátbólgnar að myndinni lokinni og héldum þá áleiðis í háttinn.

Í gær færðum við okkur yfir í menningu aðeins svipaðari okkar eigin og fræddumst um Norður-Ameríku. Stelpurnar voru ekki ósáttar við breytinguna í matarmálum og fögnuðu BBQ vængum, sætrar-kartöflustöppu með sykurpúðum, Slubby-Joe , Red velvet köku, ekta amerískum súkkulaðibitakökum og amerískum pönnukökum (í morgunmar. Metnaðurinn í eldhúsinu er það mikill!). Að sjálfsögðu vönduðum við okkur við að tala ensku allan daginn og var það skemmtileg æfing. Á fræðslunni kviknaði umræða um þrælahald og það að allir séu jafnir frammi fyrir Guði. Í útiverunni var gengið að Sandfellstjörn þar sem stelpurnar nutu veðurblíðunar í dásamlegu umhverfi meðan þær busluðu í tjörinni. Eftir kaffi var haldið í ekta amerískan matarslag þar sem matarafgangar síðustu vikunnar nýttust vel. Eftir það voru svo allir smúlaðir og þeim hent í sturtu.
Í gærkvöldi fengum við svo aðra frábæra heimsókn, nú frá heilli hljómsveit. Það var hljómsveitin Tilviljun? sem mætti hingað á svæðið og stilltu sér upp á tröppunum hér fyrir utan Hlíðina. Þar héldu þau dásamlega útitónleika sem féllu í afar ljúfa löð meðal áheyrenda. Þau stöldruðu svo við áfram og leiddu lofgjörðar og vitnisburðastund síðar um kvöldið, eftir að stelpurnar skelltu sér á Kaffi Kjós, sem búið var að stilla upp í matsalnum, og gæddu sér á svakalegri amerískri súkkulaðiköku (með sykurpúðum í) og bananasplittsís.
Lofgjörpar- og vitnisburðarstundin fór fram úr öllum okkar helstu væntingum og við áttum hér saman dásamlega kvöldstund.

Veðurblíðan ákvað svo að heiðra okkur þriðja daginn í röð. Auðvitað nýtum við það til hins ítrasta og þessa stundina, meðan ég sit hér og skrifa (úti auðvitað), fylgist ég með stelpunum „slide-a“ eftir sérstakri vatnsbraut sem stillt hefur verið upp í grasinu – á meðan foringjarnir sprauta á þær með brunaslöngu. Bara hver annar dagur hér í Vindáshlíð.
Í dag er Suður-Amerískt þema. Ein stelpan hér í flokknum á annað heimili á Kúbu og hún gat frætt okkur aðeins um landið, auk þess sem hún kenndi okkur nokkur orð á spænsku. Í dag erum við svo búin að gefa okkur smá tíma í brennóleiki, sem hafa aðeins setið á hakanum síðustu daga, og fleiri íþróttakeppnir. Á dagskrá kvöldsins er svo hæfileikakeppni og þar eftir óvæntur hermannaleikur þar sem reynt verður að gera stelpunum örlitla grein fyrir því hvernig líf fólks í stríðshrjáðum löndum er.

Á hverjum degi fara stelpurnar svo í klukkutímalangar smiðjur þar sem þær geta valið um leiklistarsmiðju, tónlistarsmiðju, handavinnusmiðju, íþróttasmiðju eða fréttablaðssmiðju. Þær velja sér sjálfar smiðju eftir sínu áhugamáli og stefnan er að allar smiðjur skili einhverju til hópsins í lok flokks.

En nú er kominn tími á að forstöðukonan slide-i sér eftir brautinni.
Vonandi náum við að smella inn fleiri fréttum fljótlega – en ég minni ykkur á myndirnar sem koma inn á hverjum degi.

Kveðja úr paradísinni,

Tinna Rós, forstöðukona 🙂