Það voru spenntar stelpur sem komu í Hlíðina á Þriðjudaginn. Þær ljómuðu af gleði voru tilbúnar að takast á við öll þau ævintýri sem staðurinn hefur uppá að bjóða og ekki var hverra hvað veðrið var unaðslega frábært. Þegar öllum hafði verið komið fyrir í herbergjum hófust leikar. Stelpurnar hlupu um allt svæðið í leit að vísbendingum í ratleik og þær leystu allar þrautirnar með stakri prýði. Eftir kaffi hófst svo brennókeppnin en þar keppa herbergin sem lið. Um kvöldið sáu tvö herbergjanna um skemmtiatriði á kvöldvöku og voru þau bráðskemmtileg. Það voru því þreyttar en sælar stúlkur sem lögðu höfuð á kodda og sofnuðu vært.

Á öðrum degi var vakið kl.09 og stúlkurnur valhoppuðu glaðar inn í matsal og fengu sér morgunmat. Því næst héldu þær á biblíulestur þar sem þær fengu smá fræðslu og sungu nokkur lög. Þetta er fróðleiksfúsar og duglegar stelpur og það eru einstök forréttindi að fá að deila þessum dögum með þeim. Að biblíulestri loknum hélt brennókeppnin áfram og einnig tóku stúlkurnar þátt í nokkrum íþróttakeppnum. Þar má nefna sippukeppni, húshlaup, broskeppni og kraftakeppni. Í hádegismat var ljúffengt lasagna sem stúlkurnar borðuðu með bestu lyst. Eftir hádegismat fóru þær í göngutúr niður að réttum og fóru þar í nokkra leiki. Þegar þær skriðu aftur inn í hús voru margar stúlknanna alveg uppgefnar eftir gönguna og voru því fegnar að fá létta kaffihressingu. Það er aldrei dauð stund í Vindáshlíð og eftir kaffi hélt brennókeppnin áfram og sömuleiðis íþróttirnar. Margar stúlknanna völdu þó að sitja í rólegheitunum með foringjum í setustofu og flétta vinabönd. Í kvöldmatinn var bleikt skyr og pizzabrauð og að honum loknum héldum við aftur að hressa og skemmtilega kvöldvöku þar sem tvö herbergjanna sáu um atriði. Við námum þó ekki staðar þar heldur skunduðum í náttfatapartý með tilheyrandi látum og fíflaskap. Það voru aldeilis úrvinda stúlkur sem lögðust til svefns, en þær sofnuðu allar með bor á vör.