Hér eru 82 ofsalega hressar og skemmtilegar stelpur að hafa það gaman. Veðrið er ekki upp á sitt besta, rigning og rok en það hefur svo sannarlega ekki skemmt stemninguna hjá þessum frábæru stelpum.

Í gær var farið í Top Model, þar sem herbergin velja 2 módel og hanna á þau kjól/föt úr ruslapokum og klósettpappír, síðan eru þær málaðar, greiddar og skreyttar áður en tískusýningin hefst. Þetta fannst þeim mjög skemmtilegt. Eftir kvöldmat var farið í Hallgrímskirkjuna okkar hér Vindáhlíð, sungið og höfð kósýstund. Síðan var haldið á kaffihúsakvöld inn í matsal, en þá voru foringjar búnir að leggja á borð, gera huggulegt, róleg tónlist og boðið upp á súkkulaðiköku með karamellu og ís, þetta kunnu stelpurnar vel að meta. Eftir þetta allt var í boði að fara að spila skotbolta við foringja, horfa á video saman eða bara hafa það notalegt inni á herbergjum saman. Það eru þreyttar stelpur sem fara að sofa hér á kvöldin og urðu margar fegnar þegar var tilkynnt að það mætti sofa 30 mínútum lengur í morgun. Þetta er mjög jákvæður og frábær hópur og gaman að vera með þeim.

Kær kveðja út Kjósinni,

Hanna Lára forstöðukona