17. júní hófst með því að stelpurnar voru vaktar með „hæ hó jibbí jé“ söng. Fáninn var hylltur og svo voru spilaðir brennóleikir, keppt í íþróttum og margar stelpur byrjuðu að hnýta vinabönd. Eftir hádegismat var 17. júnídagskrá með skrúðgöngu sem endaði við fánastöngina þar sem þær sungu þjóðsönginn hátt og fallega. Að því loknu voru ýmsar þrautir, andlitsmálun og nammi á boðstólnum. Fagurlega skreytt hátíðarkaka rann ljúflega niður. Á meðan herti rigningin sig og spöruðu himnarnir ekki vatnið það sem eftir lifði dags. Stelpurnar létu það ekki á sig fá. Sumar undu inni við spil og vinabandagerð, aðrar léku sér í íþróttahúsinu og svo voru sjö eldhressar stelpur sem fóru í göngu upp á Írafell. Þær komu til baka tveimur tímum síðar, rennandi blautar og skælbrosandi.- veður er aldrei vont bara mismunandi vott-  Eftir kvöldmat var kvöldvaka og að lokum ball í íþróttahúsinu þar sem flutt voru skemmtiatriði af starfsmönnum í Vindáshlíð. Á meðan á ballinu stóð var hægt að gæða sér á grilluðum pylsum. Annað kvöld í Vindáshlíð þar sem sælar og þreyttar stelpur lögðust til svefns og sváfu vært.

Myndir af deginum má nálgast hér.

Þórunn Arnardóttir, forstöðukona.

 

17juniVI