Það voru 85 hressar stúlkur sem komu í björtu veðri í Vindáshlíð í gær. Skipt var í hergbergi þannig að allar gæti verið með vinkonum sínum. Ratleikur um húsið og nánasta svæði tók svo við og strax eftir yndislega sveppasúpu og brauð í hádegismat hófst brennókeppnin. Dásamlegar kökur voru borðnar á borð í kaffinu og síðan tók við meira brennó, íþróttakeppni, vinabandagerð fram að kvöldmat. Spagettí rann ljúflega niður og ljóst að hér eru matmiklar stúlkur sem kunna gott að meta.

Skemmtiatriðin á kvöldvökunni voru í umsjón herbergjanna Skógarhlíð og Hamrahlíð. Í kjölfar kvöldvöku var kvöldkaffi með ávöxtum og kexi og svo hlustuðu stúlkurnar á hugleiðingu í setustofunni. Þá var komið að háttartíma þar sem bænakonur sögðu og áttu notarlegt spjall í hverju herbergi á meðan ró komst á hópinn. Það voru lúnar en glaðar stúlkur sem sofnuðu hver á fætur annarri og alger ró var komin í húsið um miðnætti.

Ég þakka Guði fyrir allar þessar fallegu stelpur sem okkur er treyst fyrir þessa viku. Hann vakir yfir okkur hverri og einni.

 

Kveðja, Auður Páls forstöðukona