Stúlkurnar voru vaktar klukkan níu í morgun eftir góðan svefn. Dagurinn var bjartur og fallegur þótt nokkuð hafi blásið. Eftir morgunmat og morgunstund var keppni í brennó og á apabrúnni. Í hádegismat var lasagna sem hvarf ofan í kraftmiklar stúlkurnar. Eftir hádegi var gengið að Brúðarslæðu (fossi) í nágrenninu og komu hressar stúlkur og nokkuð vindblásnar í kaffið um klukkan fjögur. Eftir kaffi var áfram keppt í brennó, þrjú herbergi undirbjuggu atriði fyrir kvöldvöku og margar fóru svo í sturtu. Í kvöldmatinn var grjónagrautur sem hvarf í stórum skömmtum og síðan var kvöldvaka. Í kjölfarið var kvöldkaffi og svo kvöldstund í setustofunni. Þar var rifjað upp hvernig Vindáshlíð var valin sem staður fyrir sumarbúðir stúlkna og að fyrstu sumurin var gist í tjaldi. Eftir hugleiðinguna fóru þær sem vildu og burstuðu tennurnar úti í læk og drifu sig svo í náttföt. Þegar allar voru komnar í herbergi hófst með fjöri og gleði náttfatapartý sem fól í sér dans og leiki sem starfsmenn stjórnuðu – skemmtilega skreyttir. Líka var farið í leik og starfsmenn léku leikrit. Allir fengu svo ís og lesin var saga. Það voru glaðar en þreyttar stúlkur sem fóru hver í sína koju klukkan hálf tólf og voru fljótar að sofna.

Góðar kveðjur úr Vindáshlíð,

Auður Páls
forstöðukona