Það var ræs klukkan níu en margar stúlkur sem hefðu viljað kúra lengur. En það dugði ekkert slór. Í dag er heimferðardagur og margir foreldrar orðnir spenntir að fá sínar stelpur heim. Eftir morgunmat tók við fánahylling og svo var morgunstund þar sem við rifjuðum upp það helsta úr flokknum og sungum uppáhaldslögin. Eftir morgunstundina hófst æsispennandi brennóleikur milli vinningsliðsins og starfsmanna. Spennan var mögnuð og óhætt er að segja að bæði lið hafi lagt allt í sölurnar – en starfsmenn rétt mörðu sigur 🙂Síðan kláruðu stúlkurnar að pakka og komu svo í hádegismat sem borðaður var úti í sólinni. Í matinn voru pyslur og djús, nokkuð sem stúlkurnar virtust kunna alveg á. Óhætt er að segja að stúlkurnar hafi matarást á okkar góðu konum sem nostrað hafa í bakstri og matseld. Lokastundin var svo haldin í Hallgrímskirkju og þaðan fóru þær í rúturnar, eða í bíla sem sóttu þær.
Þetta hefur verið einstök vika hérna í Vindáshlíð og er ég þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir öllum þessu yndislegu stúlkum. Starfshópurinn er samhentur og kann sitt hlutverk vel. Okkar markmið hefur verið að þjóna stúlkunum svo þeim líði sem best og þær fari héðan með góðar minningar, fullvissar þess að þær geti trúað á Guð og að Guð hefur trú á þeim.
Með góðum kveðjum,
Auður Pálsdóttir
forstöðukona