Það var bjart veður þegar stúlkurnar voru vaktar klukkan níu og vissulega hefðu nokkrar viljað sofa lengur. En margt var framundan því í dag var veisludagur. Í morgunmat var hafragrautur sem fékk fádæma viðtökur svo elda þurfti meira. Að lokinni fánahyllingu var morgunstund þar sem við ræddum tilgang reglna og meginmun umferðarmerkjaflokka og nokkurra umferðarmerkja. Síðan tók við úrslitakeppnin í brennó og lokahnikkurinn á íþróttaþátttökunni var rétt fyrir hádegi. Í hádegismat var ávaxtasúrmjólk og smurt brauð, nokkuð sem þær hámuðu í sig eins og enginn væri morgundagurinn. Eftir hádegi var gönguferð upp í skóg enda hlýtt, þurrt og bjart úti. Kaffið var á sínum stað með gómsætum kökum en eftir kaffi fór fram hárgreiðslukeppni. Margar einbeittar listakonur unnu frumlegar greiðslur og skreyttu með jurtum úr náttúrunni og módelin tóku hlutverk sitt alvarlega. Þá undirbjuggu stúlkurnar sig fyrir veislukvöldið með viðeigandi snyrtingu og með því að fara í sparilegri föt. Þegar hringt var inn í veislumatinn um klukkan sex beið þeirra skreyttur salur og óhefðbundin borðaröðun. Í matinn var pizza sem rann ljúflega niður og stúlkurnar einstaklega prúðar og stilltar. Veitt voru margskonar verðlaun, til dæmis fyrir stigahæsta íþróttaherbergið, hárgreiðslukeppnina, innanhúskeppni í umgengni og brennókeppnina. Kvöldvakan hófst um klukkan átta og var með allra veglegasta móti. Starfsfólk og nokkrir gestir fóru á kostum í fjölmörgum skemmtiatriðum og líklega hefur söngurinn heyrst um alla Kjós. Það voru svo rjóðar og sælar stelpur sem komu í setustofuna og fengu ís og hlustuðu á hugleiðingu. Í lokin fóru þær sem vildu út í læk að bursta tennur. Að endingu komu bænakonur inn á herbergin og áttu með þeim notarlega stund. Allar fengu þær afhenta söngbók Vindáshlíðar sem er persónulega merkta hverri og einni með kveðju frá starfsfólki. Þá fengu allar blátt Vindáshlíðararmband. Það var svo ekki fyrr en upp úr miðnætti að heyra mátti djúpan andadrátt úr hverju rúmi.
Allar heimsins bestu kveðjur úr Vindáshlíð,
Auður Pálsdóttir,
forstöðukona