Í dag er hátíð. Þær stúlkur sem hafa ekki komið áður í dvalarflokk í Vindáshlíð hafa nú sofið þrjár nætur í dvalarflokk og eru því formlega orðnar Hlíðarmeyjar. Við héldum upp á það með því að leyfa þeim að sofa klukkutíma lengur en vanalega (af því að þær fóru aðeins of seint að sofa í gær) og svo fengu allir sem vildu Cocoa Puffs í morgunmatinn.

Eftir morgunmat drifu þær sig svo beint í íþróttakeppnir og brennóleiki, enda brennókeppnin að verða ansi spennandi og bara örfá lið eftir í keppninni.

Eftir hádegismatinn var farið í leik úti í skóginum og á svæðinu hér í kring. Það er aðeins blautt í dag, eins og hina dagana, en þó vel hægt að vera úti og njóta náttúrunnar líka.

Í kaffitímann var svo skúffukaka og döðlubrauð. Eftir kaffi tók svo við frjáls tími, ásamt því að úrslita brennóleikurinn var spilaður og því komið í ljós hvaða herbergi eru brennómeistarar.

Þegar kom að kvöldmatnum var ákveðið að breyta aðeins til. Stelpurnar voru látnar draga litla miða með heiti á ólíkum löndum. (fátækt Afríkuland, Indland, Noregur, Ítalía og Ameríka og fl.) og fengu þær að safnast saman í sínar þjóðir í matsalnum. Svo var borin á borð matur sem þótti hæfa því sem gengur og gerist í hverju landi fyrir sig. Fátæku þjóðirnar voru fjölmennastar og fengu frekar ólystugan mat og lítið af honum sem þær margar þurftu að deila sín á milli. Evrópuþjóðirnar fengu fisk, kartöflur eða pastarétt og voru bara nokkrar í hóp með ágætis mat hjá sér. Ameríkuþjóðin voru hinsvegar bara tvær stelpur sem fengu lúxus mat, drykk, eftirrétt og auðvitað þjónað til borðs. Stelpurnar áttuðu sig fljótt á misréttinu, en leikurinn er einmitt til þess gerður að fólk átti sig aðeins á því að við höfum það ekki öll jafn gott þegar kemur að grunnþáttum eins og mat. Þetta heppnaðist vel, en að sjálfsögðu fengu svo allir að borða þegar leikurinn var búin. Við buðum þeim upp á pítu með grænmeti sem var vel tekið af hópnum.

Eftir kvöldmat var svo leikhúskvöld þar sem áhugasamar fengu að sýna leikrit og þess á milli sungum við alls konar skemmtilega söngva. Allir skemmtu sér mjög vel og tóku vel undir 🙂

Strax eftir kvöldvökuna fórum við svo í kirkjuna þar sem við fengum að heyra söguna um kirkjuna, fengum að hlusta á hugleiðingu og svo auðvitað sungum við líka þar.

Þegar kvölddagskráin var búin, var boðið uppá kvöldkaffi, heitt kakó, kex og epli og eftir það fengu stelpurnar frjálsan tíma lengur en vanalega áður en bænakonurnar komu inn til þeirra til að ljúka deginum með spjalli og bæn.