Þriðjudagurinn 8. júlí
Klukkan níu í morgun voru stúlkurnar vaktar formlega þó flestar væru vaknaðar. Eftir morgunmat fóru þær á fánahyllingu, mynduðu hring um fánastöngina og sungu saman fánasönginn. Að henni lokinni fóru þær niður í kvöldvökusalinn á Biblíulestur í boði forstöðukonunar sem sagði frá myndun Biblíunnar og hópurinn æfði sig í að fletta upp versum. Til dæmis lærðu þær þá dýrmætu lexíu um notagildi efnisyfirlita sem mun nýtast þeim á ýmsum sviðum. Fram að hádeigismat var frjáls tími, keppt í íþróttakeppnum og áfram tókust brennólið herbergjanna á.
Í hádegismat klukkan hálf eitt var kjúklingapasta með grænmeti. Því næst var gönguferð upp að Pokafossi og Brúðarslæðu og við Brúðarslæðu fengu stelpurnar leyfi til að vaða í stígvélum eða berfættar þeim til mikillar ánægju. Stúlkurnar tóku með sér nesti í bakpokunum sínum sem eldhússtelpurnar höfðu útbúið fyrir þær og við Brúðarslæðu myndaðist skemmtileg lautarferðarstemning.
Í kvöldmat var gómsæt tómatsúpa og pítsubrauð og síðan frjáls tími fram að kvöldvöku. Formleg kvöldvaka vék fyrir óvæntum dagskrárlið en þegar þær mættu niður í kvöldvökusalinn var búið að breyta honum í bíósal með stólum og dýnum og þær horfðu á myndina Frozen. Einstök stemning myndaðist og hópurinn söng með öllum lögunum sem þær kunnu greinilega utanað. Þær fengu ávexti í kvöldkaffi sem þær snæddu yfir myndinni.
Eftir myndina fór stúlkurnar upp í setustofu, sungu róleg lög og hlýddu á hugleiðingu frá foringja. Forstöðukonan spjallaði síðan við þær og eftir kvöldsönginn þökkuðu þær fyrir daginn. Í kvöld var ekki boðið upp á að fara út að bursta tennur í læknum því það þótti heldur hráslagalegt úti. Bænakonur enduðu síðan daginn með sínum stelpum inni á herbergi og báðu kvöldbænir.
Hér er góður hópur saman kominn af bæði starfsfólki og stúlkum.
Hér má sjá fleiri myndir frá skemmtigöngunni.