Miðvikudagurinn 9. júlí

Stúlkurnar voru vaktar með óvæntum hætti í morgun. Foringjarnir voru búnir að klæða sig í búninga og sungu lög úr bíómynd gærkvöldsins Frozen. Foringjarnir tóku hlutverk sín alvarlega og lifðu sig inn í sönginn. Á leiðinni í morgunmat sáu þær að það var búið að skreyta alla veggi með snjókornum.

Eftir morgunmat fóru stúlkurnar á fánahyllingu og svo á Biblíulestur þar sem þær fræddust um tákn í Biblíunni, KFUM og K og merki þess og svo hélt uppflettikeppnin áfram. Fram að hádegismat var frjáls tími og keppt í íþróttum og brennó.

Í hádegismat var hakk og spaghettí og grænmeti sem borðaðist mjög vel á meðan foringjarnir tóku söng og dansatriði úr Frozen stelpunum til mikillar ánægju. Eftir hádegismat er alltaf farið í einhverja göngu og í dag var farið í gömlu réttirnar handan hliðsins. Þar var farið í alls kyns leiki áður en haldið var til baka. Til dæmis var farið í hinn sívinsæla réttaleik þar sem foringjarnir reyna að ná „kindunum sínum“ (þ.e. stelpunum) í rétt hólf og raða þeim eftir hárlit og úlpulit.

Í kaffitímanum var boðið upp á sjónvarpsköku og svo var frjáls tími fram að kvöldmat. Á þessum tíma dags fara alltaf einhver herbergi í sturtu. Í dag æfðu stúlkurnar í Furuhlíð, Lækjarhlíð, Birkihlíð og Víðihlíð atriði fyrir kvöldvökuna. Þetta er dýrmætt tækifæri fyrir stelpurnar til að æfa sig í að koma fram og gera eitthvað fyrir framan hóp sem er mjög þroskandi.

Í kvöldmat var skyr og brauð og foringjarnir léku söng og dansatriði úr Frozen fyrir stelpurnar. Í dag er búið að vera frekar napurt veður en þessi hópur er svo hress að hann lætur það ekki stoppa sig. Kvöldvaka, kvöldkaffi og hugleiðingin voru á sínum stað en seinna um kvöldið var síðan náttfatapartý öllum að óvörum. Foringjarnir streymdu inn ganginn þegar stelpurnar biðu eftir því að bænakonurnar færu inn á sín herbergi. Þær sungu og dönsuðu og hópuðu öllum inn í matsal þar sem mega danspartý fór af stað. Dansað var út um öll gólf, uppá borðum og allir sungu með. Aðra eins stemningu höfum við bara ekki séð. Gleðin var svo sannarlega við völd. Síðan voru foringjarnir með skemmtileiki og glens og allir veltust um af hlátri. Virkilega vel heppnaður dagur <3

Fleiri myndir frá degi þrjú má sjá hér.