Mánudagurinn 14. júlí

Fullar rútur af spenntum stelpum mættu upp í Vindáshlíð þennan fallega morgun. Þær fóru beint inn í matsalinn að hlýða á helstu reglur frá forstöðukonunni og svo röðuðu allir starfsmennirnir sér upp og kynntu sig fyrir hópnum. Stelpunum var síðan raðað niður á herbergi og allar vinkonur fengu að vera saman í herbergi eins og alltaf. Sumar eignuðust nýjar vinkonur í rútunni á leiðinni og ákváðu að vera saman í herbergi. Í Vindáshlíð eru 8 og 6 manna herbergi sem öll heita einhverjum fallegum nöfnun eins og Reynihlíð eða Víðihlíð. Bænakonur hvers herbergis sýndu sínum stelpum í hvaða herbergi þær væru, fóru yfir öryggisreglur og sýndu þeim staðinn. Bænakona er foringi sem heldur utan um sitt herbergi og endar t.d. með þeim daginn og biður kvöldbænir.

Í hádegismat var bleik Vindáshlíðarsúrmjólk sem var mjög vinsæl og svo byrjaði hin formlega dagskrá. Forstöðukonan spurði hópinn hverjar hefðu prófað aparóluna, tennistækið og kíkt upp í Hallgrímskirkju (kirkjuna hér á staðnum, ekki í bænum 🙂 ) og allar höfðu gert það og meira til. Þær höfðu verið duglegar að leika sér úti eftir hittinginn með bænakonunni sinni.

Eftir mat fóru stelpurnar í ratleik og skiptust í lið eftir því í hvaða herbergi þær eru í. En hvert herbergi keppir líka í brennó sem lið og í innanhússkeppninni sem snýst um að hafa herbergið snyrtilegt. Stelpurnar stóðu sig mjög vel í ratleiknum og að honum loknum var frjáls tími fram að nónhressingu.

 

6.fl_dagur_1

Hér er hægt að skoða fleiri myndir frá fyrsta degi.

Í nónhressingu var boðið upp á sjónvarpsköku og kryddbrauð og svo var frjáls tími fram að kvöldmat og stelpurnar í Birkihlíð, Barmahlið og Eskihlíð að undirbjuggu leikatriði fyrir kvöldvökuna. Opið var fyrir bolasölu í setustofunni og boðið upp á bönd til vinabandagerðar.

Stúlkurnar borðuðu kvöldmat um hálf sjö og fengu hakk og pasta sem þær hökkuðu í sig. Frjáls tími var svo fram að kvöldvöku sem er í kvöldvökusalnum á neðri hæð nýbyggingarinnar. Sungnir voru hressir söngvar milli þess sem stelpurnar í Birkihlíð, Barmahlið og Eskihlíð kitluðu hláturtaugarnar með fyndnum leikatriðum og spreyttu sig í því að koma fram.

Sumum finnst við alltaf vera að borða í Vindáshlíð því við hittumst fimm sinnum yfir daginn í matsalnum til að borða. Hér eiga allir að vera saddir og sælir. Kvöldkaffi var að lokinni kvöldvöku og stelpurnar fengu smá ávexti og mjólkurkex í magann og síðan var róleg stund í setustofunni, sungnir voru kvöldsöngvar og Ólöf foringi var með fallega hugleiðingu um Biblíuna.

Það hafði rignt í nokkrum skúrum yfir daginn en á hugleiðingunni stytti upp og stelpunum var boðið að fara út að læk að bursta tennur sem þeim fannst gríðarlega spennandi. Bænakonur hittu þær síðan inni á herbergi, fóru yfir daginn með þeim og báðu kvöldbænir.

Þessi hópur er yndislegur og ljúfur og margar að koma hingað í fyrsta skipti. Það er svo gaman og algjör forréttindi að sjá hvað þær eru spenntar yfir því að vera hérna .