Þriðjudagurinn 14. júlí

Stelpurnar voru vaktar klukkan níu í morgun en nokkrar voru vaknaðar og settust bara inn í setustofu og lásu bækur, sínar eigin eða úr bókasafni Vindáshlíðar. Eftir morgunmat fór þær á fánahyllingu. Á hverjum morgni fara stelpurnar upp að fánastöng, mynda hring og syngja fánasönginn okkar Fáni vor sem friðarmerki. Þetta er dýrmætt tækifæri fyrir stelpurnar að fá að kynnast sameiningartákni okkar Íslendinga, fræðast um fánann og læra um meðhöndlun hans.

Eftir fánahyllingu var Biblíulestur í kvöldvökusalnum í boði forstöðukonu sem sagði þeim frá Biblíunni og skiptingu hennar og þeim kennt að fletta upp versum. Sungin voru hress lög og svo var prófað að fara á Biblíubænó inni á herbergi með sinni bænakonu. Það gafst mjög vel og foringjarnir voru yfir sig glaðir yfir þessum nýja dagskrárlið sem þeir sjálfir fengu hugmynd að og flettu upp versum með stelpunum. Síðan var keppt var í íþróttakeppnum, brennókeppnin var á sínum stað og opið var fyrir bolasölu í setustofunni og boðið upp á bönd til vinabandagerðar fram að hádegismat. Það er mjög vinsælt að fá bönd í setustofunni og læra vinabandagerð enda er það samofið menningu Vindáshlíðar.

Klukkan hálf eitt var hádegismatur og að þessu sinni hafi Fjóla ráðskona eldað yndislegan fiskrétt með hrísgrjónum og grænmeti. Eftir hádegismat fóru stelpurnar í skógargöngu og enduðu í leikjum í Birkikirkju (stórt rjóður hér í hlíðinni). Þær þurftu að stikla yfir læk og feta sig í klettum. Það var rigning á köflum en stelpurnar bjuggu sig vel og tóku með bakpoka og vatnsbrúsa og fannst þetta virkilega spennandi.

6.fl_dagur_2

Hér er hægt að sjá fleiri myndir frá skógarferðinni.

Í kaffitíma í dag var dýrindis súkkulaði kaka og svo var áfram keppt í brennó og íþróttakeppnum. Reynihlíð, Furuhlíð og Hamrahlíð undirbjuggu atriði kvöldvökunnar og fengu aðgang að stórglæsilegri búningageymslu Vindáshlíðar.

Í kvöldmat voru tortillur með öllu tilheyrandi og svo fljótlega byrjaði kvöldvakan. Salurinn ómaði af söng og stelpurnar skemmtu sér vel yfir leikatriðunum áður en haldið var upp í matsal í kvöldkaffi. Þar var boðið upp á ávexti og mjólkurkex og svo komu þær sér þægilega fyrir í setustofunni. Stelpurnar sungu falleg róleg lög og hlýddu á áhugaverða hugleiðingu frá Kristínu foringja. Forstöðukonan spjallaði svo við stelpurnar og tilkynnti þeim að þær gætu ekki farið út í læk að tannbursta því það var úrhellir.

Þegar stelpurnar voru búnar að hátta, koma sér fyrir og biðu eftir bænakonum streymdu þær inn gangana í náttfötum með tígó, málaðar í framan með potta og pönnur og sungu Hæ hó jibbíjey, það er komið náttfatapartý. Allar stelpurnar söfnuðust saman í matsalnum og þar var mega danspartý, uppá borðum, bekkjum og í öllum hornum. Foringjarnir kenndu þeim dansa við sum lög og allir sungu með. Gleðin og hávaðinn var þvílíkur. Síðan var haldið í setustofuna þar sem foringjarnir voru með fyndna leiki og leikatriði fyrir stelpurnar. Svo kom fræg hljómsveit í heimsókn (foringjar í búningum) og gaf stelpunum ís. Endað var á því að syngja lokalag allra náttfatapartýa Góða nótt og sofið rótt og bænakonur fóru og báðu kvöldbænir með sínum stelpum.

Frábær og hress dagur sem endaði skemmtilega.