Miðvikudagurinn 15. júlí
Stúlkurnar fengu að sofa hálftíma lengur vegna náttfatapartý gærkvöldsins en voru vaktar með óvæntum hætti í morgun. Foringjarnir voru búnir að klæða sig í búninga og sungu lög úr bíómyndinni Frozen inn eftir göngunum og tóku hlutverk sín alvarlega og lifðu sig inn í sönginn. Á leiðinni í morgunmat sáu þær að það var búið að skreyta alla veggi með snjókornum og stelpunum fannst þetta mjög gaman og spurðu foringjana mikið hver væri hvaða persóna. Aðallag myndarinnar Frozen: Let it go hafði einmitt verið spilað á danspartíinu í matsalnum kvöldið áður og þá varð allt brjálað. Hver einasta stelpa kunni lagið og söng hástöfum þannig að það undirtók í húsinu.
Eftir morgunmat fóru stúlkurnar á fánahyllingu og svo á Biblíulestur þar sem þær lærðu um fyrirgefninguna og svo hélt uppflettikeppnin áfram. Fram að hádegismat var frjáls tími, opið fyrir bönd í setustofunni, sturtur opnar og keppt í íþróttum og brennó.
Veðrið er búið að vera mjög frumlegt. Það skiptast hratt á skin og skúrir en það er alltaf frekar hlýtt og milt í veðri og ágætt logn.
Í hádegismat í dag var dásamleg tómatsúpa með brauði og hrökkbrauði og foringjarnir léku söngatriði úr Frozen og stelpurnar sungu með. Eftir hádegismat erum við yfirleitt með gönguferðir og útiveru hvers konar. Í dag buðum við stelpunum að velja um að fara upp á Sandfell eða hringinn í kringum fellið. Stúlkurnar voru mjög duglegar þrátt fyrir smá vætu og borðuðu nesti á leiðinni sem foringjarnir tóku með. Stelpurnar sem fóru hringinn komu aðeins á undan og svo fór restin að tínast inn næsta klukkutímann. Þær voru virkilega stoltar af sér og máttu vera það. Það var ákveðið að skipta út íþróttakeppnum og brennóleikjum fyrir kósýstund í setustofunni með vinabandakennslu og opið var í sturturnar fyrir þær sem vildu.
Hér er hægt að skoða fleiri myndir frá degi 3.
Í kvöldmat var pulsupasta með grænmeti og fljótlega byrjaði kvöldvakan en ekki fyrr en foringjarnir höfðu tekið nokkur atriði úr Frozen og allir sungu með svo undirtók í matsalnum. Þetta skiptið voru það Víðihlíð og Gljúfrahlíð sem voru með atriði á kvöldvökunni og kvöldkaffi og hugleiðing í setustofunni voru á sínum stað að henni lokinni. Ástrós foringi var með hugleiðingu þetta skiptið og sagði áhrifamikla sannsögulega sögu um ólympíuhlaupara nokkurn. Öllum til mikillar gleði hafði stytt upp og það var hægt að fara út í læk að bursta og einnig máttu þær sem vildu fara í bænarjóður, skógargöngu eða eiga ljúfa stund uppí kirkju fyrir svefninn. Bænakonur komu svo inná herbergi sinna stelpna og enduðu daginn með þeim og báðu kvöldbænir.
Við erum svo stoltar af þessum frábæru stelpum sem stóðu sig allar eins og hetjur í göngunni í dag og eru almennt svo jákvæðar.