Fimmtudagurinn 16. júlí

Stelpurnar voru vaktar í morgun klukkan níu. Yfirleitt eru nokkrar vaknaðar og sestar inn í setustofu en þennan morguninn voru eiginlega engar og teljum við að þær hafi sofið svo vel og lengi eftir fjallgönguna í gær. Þeirra beið síðan hátíðarmorgunverður í tilefni þess að þær eru búnar að sofa hér í þrjár nætur og eru því nú formlega orðnar Hlíðarmeyjar eins og allar þær stúlkur og konur það hafa gert. Það brutust út fagnaðarlæti þegar forstöðukonan tilkynnti þeim að þær væru orðnar Hlíðarmeyjar og allar klöppuðu.

Fánahyllingin var á sínum stað og síðan skiptu stúlkurnar sér í hópa eftir áhugasviði til að undirbúa guðsþjónustu í Hallgrímskirkju Vindáshlíðar eftir hádegismat. Boðið var uppá að fara í leiklistarhóp sem undirbjó leikatriði, bænahóp sem samdi bænir og flutti þær í kirkjunni, skreytingahóp sem skreytti kirkjuna og sönghóp sem æfði lög og flutti í kirkjunni eins og kirkjukór.

6.fl_dagur_4

Þessar stelpur léku í leikriti í Hallgrímskirkju. 
Fleiri myndir frá degi 4 má sjá HÉR.

Í hádegismat í dag var grjónagrautur með lifrapylsu og að honum loknum hringdu stelpurnar í bænahópnum kirkjuklukkunum til guðsþjónustu. Stundin í kirkjunni var yndisleg og átti þátttaka stelpnanna mestan þátt í því. Leikhópurinn fór á kostum þegar hann lék söguna af Jósef og bræður hans. Sumarbúðirnar hér í Vindáshlíð búa svo vel að hafa þessa fallegu kirkju sem byggð var 1878 og var flutt í heilu lagi frá Saurbæ í Hvalfirði hingað uppí Hlíð 1957. Hér hefur verið messað, skrírt, fermt og gift.

Í kaffitímanum var boðið upp á gulrótarköku með kremi og svo var opið fyrir bönd og bolasölu í setustofunni, keppt í íþróttum, og brennó fram að kvöldmat. Stelpurnar eru mjög duglegar að fara sjálfar út að leika og láta vætuna sem ekki stoppa sig. Hér skiptast á skin og skúrir.

Í kvöldmat var píta með öllu tilheyrandi og frjáls tími fram að kvöldvöku. Kvöldvökuatriðin voru í boði Lækjarhlíðar, Skógarhlíðar og Grenihlíðar milli þess sem foringjarnir stjórnuðu hressum fjöldasöng. Stelpurnar eru nú farnar að læra söngvana utanað og taka því vel undir svo húsið ómar af söng á kvöldvökum og mikið beðið um óskalög. Kvöldkaffi og hugleiðingarstundin voru á sínum stað og það stytti upp rétt svo að þær komust út í læk að bursta og í bænarjóður. Bænakonur enduðu daginn með sínum herbergjum með rólegri stund, fóru yfir viðburði dagsins og báðu kvöldbænir.

Yndislegur dagur að kveldi kominn. Svo á morgun er veisludagur!