Föstudagurinn 17. júlí

Þá er runnin upp VEISLUDAGUR. Eftir morgunmat fóru stelpurnar á fánahyllingu og svo beint á Biblíustund í kvöldvökusalnum. Forstöðukonan talaði við stelpurnar um bænir og tengdi það virkni umferðaljósa á merkilegan hátt. Fleiri herbergi tóku þátt í uppflettikeppninni milli þess sem sungið var og trallað. Fram að hádegismat héldu undanúrslitin áfram í brennó og keppt var í íþróttakeppnum og opið var fyrir bönd í setustofu.

Í hádegismat var bleikt Vindáshliðarskyr með súkkulaðispæni og brauð. Í útiveru dagsins var boðið upp á gönguferð að fossinum Brúðarslæðu sem er yndislegur foss hér í nágreninu eða leikir í íþróttahúsinu. Um tuttugu duglegar stelpur búðu sig vel vegna vætu og lögðu af stað með sérútbúið nesti meðan restin sprellaði í íþróttahúsinu.

6.fl_dagur_5

 Hér er hægt að skoða fleiri myndir úr flokknum. 

Í nónhressingu var boðið upp á bleika köku og strax að henni lokinni opnaði Göngugatan og vinadekur. Herbergi stelpnanna breyttust í hárgreiðslustofur eða nuddstofur og sumar buðu upp á margt í einu herbergi. Það var meira að segja sungið fyrir mann í einu herbergi og annað bauð upp á koddaslag. Stelpurnar skemmtu sér vel og sumstaðar myndaðist örtröð því fljótt spurðist út ef ein var góð að gera í hár og allar vildu flotta greiðslu fyrir kvöldið. Allt ætlaði um koll að keyra þegar bjöllunni var svo hringt í veislumat. Fyrst var auðvitað myndatakan fyrir framan arininn af hverju herbergi með sínum foringja og svo fengu þær að fara í skreyttan matsalinn sem foringjarnir höfðu haft fyrir að gera glæsilegann og sitja til borðs með foringjanum sínum. Þær snæddu síðan Vindáshlíðarpizzur og renndu því niður með bleikri Vindáshlíðarsaft. Þá byrjaði verðlaunaafhendingin fyrir hárgreiðslukeppnina, íþróttakeppnirnar, brennó, ratleikinn og íþróttadrottningin krýnd við mikil fagnaðarlæti. Það verður bara að segjast að þetta er svo glaður hópur og spenntur fyrir öllu.

Eftir veislumatinn héld Göngugatan og vinadekrið áfram en þó aðeins stutta stund því brátt var hringt til veislukvöldvöku. Foringjarnir fóru á kostum og settu upp alls konar leikþætti

Sum lög voru um rigningu sem á vel við þennan flokk. Þær sungu hátt Upp í Vindáshlíð í skúr eftir að þær voru búnar að fá útskýringu á inntaki lagsins frá Salóme foringja sem er mjög hrifin af því að halda í heiðri gömlu Vindáshlíðarlögunum. Forstöðukonan var plötuð í leikatriði en náði ekki að halda andliti en þeim þótti það bara fyndnara.

Kvöldkaffi og hugleiðingin var í setustofunni. Stelpurnar fengu ís og hlýddu á fallega sögu sem Jenna foringi las við arineld. Síðan var sunginn kvöldsöngurinn og þakkað fyrir daginn. Þær sem vildu máttu fara í smá stund út í læk að bursta eða bænarjóður. Svo tóku bænakonur á móti þeim inni á herbergi og enduðu með þeim daginn.

Yndislegt síðasta kvöld!