Mánudagurinn 21. júlí 2014

Upp í Vindáshlíð er kominn flottur hópur af stórskemmtilegum stúlkum. Nokkrar eru að koma hingað í fyrsta skipti en stór hluti stúlknanna hefur komið áður. Mikill spenningur er í loftinu og hefur hlátur og gleði fyllt gangana frá fyrstu stundu. Eftir að stúlkurnar höfðu komið sér fyrir í herbergjunum var farið í ratleik um svæðið þar sem þær fengu að kynna sér umhverfi Vindáshlíðar betur. Í kaffinu var boðið upp á ljúffengar jógúrtkökur og ávexti sem virtust fara vel ofan í hópinn. Tilhlökkunin leyndi sér ekki því eftir kaffi hófst sívinsæla brennókeppni Vindáshlíðar þar sem herbergin keppa saman sem lið um titilinn „Brennómeistarar Vindáshlíðar“. Kvöldvakan var lífleg og skemmtileg en þá var farið í leikinn „Minute to win it“ þar sem stelpurnar kepptust um að leysa ýmsar þrautir á mínútu. Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu gafst stúlkunum svo kostur á því að velja á milli þess að horfa á bíómynd eða fara í kvöldbrennó með foringjum en báðir kostir vöktu mikla lukku meðal stúlknanna. Það er ljóst að stúlkurnar voru þreyttar og sælar eftir stútfullan dag af leikjum og uppákomum.

 

 

Screen Shot 2014-07-22 at 18.44.23

Hér má sjá myndir úr 7. flokki