Þriðjudagurinn 22. júlí 2014

Stúlkurnar vöknuðu hressar klukkan níu í gærmorgun tilbúnar að halda út í óvissuna. Dagurinn byrjaði eins og hefðbundinn dagur í Vindáshlíð þar sem stúlkunum var boðið upp á morgunkorn og síðan var fáninn hylltur. Í beinu framhaldi var morgunstund með biblíulestri þar sem áhersla var lögð á framkomu og kærleika sem við berum til náungans.

Fram að hádegismat kepptu stelpurnar í brennó, hnýttu vinabönd og tóku þátt í íþróttakeppnum, sem að þessu sinni voru stigahlaup og handstöðukeppni. Í útiverunni eftir hádegi var boðið upp á förðunarfræðslu, föndur, skotbolta í íþróttahúsi með foringjum og vatnsblöðrublak.

Eftir kaffi var haldin brunaæfing og í kjölfar hennar nýttu foringjarnir góða veðrið og hófu vatnsstríð. Stelpurnar lögðu mikið á ráðin og beittu öllum brögðum til þess eins að ná góðri gusu á einhvern foringjanna.

Stelpurnar fengu pítu og meðlæti í kvöldmat og mátti sjá að öll útiveran og æsingurinn krafðist mikillar næringar hjá þessum elskum. Á kvöldvökunni eftir matinn gátu þessar hæfileikaríku stúlkur látið ljós sitt skína í keppninni „Vindáshlíð Got Talent“. Að sjálfsögðu voru atriðin hvert öðru glæsilegra.

Eftir kvöldkaffi og hugleiðingu fengu stelpurnar góðan tíma með bænakonum inni á herbergjum og í framhaldi var boðið upp á kirkjustund með foringjum að lokinni dagskrá. Það vakti athygli starfsfólks hvað stúlknahópurinn sofnaði fljótt enda augljóst að langir dagar í Vindáshlíð taka mikla orku.

 

Screen Shot 2014-07-23 at 14.35.45

 

Hér má sjá fleiri myndir úr 7. flokki