Miðvikudagurinn 23. júlí 2014
Tíminn flýgur áfram hér í Vindáshlíð og nóg er um að vera. Stelpurnar voru vaktar klukkan níu og voru heldur betur tilbúnar í daginn. Eftir morgunmat og fánahyllingu var morgunstund með biblíulestri. Á biblíulestri dagsins var rætt um sjálfsmynd stúlknanna og hversu mikilvægt það er að hafa jákvætt hugarfar.
Fram að hádegismat var frjáls tími. Í setustofunni sátu stelpur og gerðu vinabönd, sturtur voru opnar og hægt var að taka þátt í brennó eða íþróttakeppnum dagsins. Í dag voru íþróttakeppnirnar húshlaup og “hvaða stúlka getur haldið tóninum lengst”. Í hádegismat fengu stúlkurnar dýrindis spaghetti bolognese og hvítlaugsbrauð að hætti eldhússtarfsfólksins sem fór vel í stúlknahópinn.
Eftir hádegismat var farið í leikinn „Survivor“ þar sem stúlkunum var skipt upp í fimm ættbálka en saman leysti hver ættbálkur ýmsar þrautir í umhverfi Vindáshlíðar. Kaffitíminn var á sínum stað með nýbakaðri möndluköku með glassúr og ávöxtum. Eftir kaffi héldu íþróttakeppnir og brennó áfram en það er ljóst að nú er spennan orðin meiri í brennókeppninni og það getur verið erfitt að tapa.
Eftir kvöldmat var farið í nýjan leik í Vindáshlíð sem kallast „Bible smugglers“. Tilgangur leiksins var að fá stúlkurnar til að átta sig á því hversu mikilvægt það er að hafa trúfrelsi. Þeim var bent á að sumstaðar væri frelsið ekki til staðar og til þess að fólk gæti iðkað trúna sína þyrfti það jafnvel að smygla biblíum inn í landið sitt eða sækja kirkjur sem einungis eru neðanjarðar. Leikurinn snérist um það að finna litlar biblíur í skógi Vindáshlíðar og ná að koma þeim í neðanjarðarkirkjuna. Foringjum og stúlkum til mikillar lukku heppnaðist leikurinn ótrúlega vel og mikil gleði og skemmtilegar umræður spunnust í kjölfarið.
Dagurinn endaði á yndislegri lofgjörðarstund þar sem foringjar sýndu áhrifamikið atriði, spiluðu tónlist og sungu lög fyrir stelpurnar. Það voru aldeilis úrvinda stúlkur sem lögðust til svefns en þær sofnuðu allar með bros á vör því framundan var útsof.
Hér má sjá myndir úr 7. flokki