Fimmtudagurinn 24. júlí 2014
Stúlkurnar hér í Vindáshlíð vöknuðu klukkan ellefu í gærmorgun vel úthvíldar eftir góðan nætursvefn. Sumar þeirra vöknuðu fyrr en aðrar og gafst þeim þá kostur á að fá sér standandi morgunverð.
Það var þó enginn venjulegur dagur í vændum. Forstöðukonan vakti stúlkurnar og bað þær um að klæða sig í flýti og fara inn í setustofu undir eins. Það var komið að því sem allar stúlkurnar höfðu beðið eftir, „Hermannaleikurinn“.
Stúlkunum var skipt upp í litlar fjölskyldur sem byrjuðu á því að snæða saman morgunmat hver á sinni stöð. En það leið ekki langur tími þar til litlu fjölskyldurnar höfðu splundrast, hver að reyna að forða sér frá því að lenda í klóm hermannanna.
Í hádegismat var boðið upp á núðlur með grænmeti og nýbakaðar brauðbollur. Keppt var í íþróttakeppnum og brennó þar á eftir en það er ljóst að íþrótta- og brennókeppnin eru „aðeins“ vinsælli en innanhússkeppnin, sem snýst meðal annars um það að halda herbergjunum hreinum 🙂
Í kaffinu fengum við til okkar frábæran leynigest en söngkonan Regína Ósk gladdi stelpurnar með nærveru sinni og söng bæði ABBA og Eurovision lög við góðar undirtektir.
Boðið var upp á hamborgara í kvöldmatnum sem má segja að hafi horfið ofan í stúlkurnar. Kvöldvakan var á sínum stað en þá kepptu herbergin sín á milli í keppninni „Amazing Race“ þar sem hlaupið var um allan skóg og stelpurnar reyndu að safna sem flestum stigum.
Kvöldskemmtunin var þó ekki á enda því eftir hugleiðingu var haldið náttfatapartí. Þá var dansað uppi á borðum og tónlist spiluð í hæsta styrk. Það má varla vera að því að sofa í Óvissuflokki en það er nú alltaf gott að leggjast á koddann eftir viðburðaríkan dag.
Hér má sjá myndir frá degi 4 og 5