Við komum í Hlíðina um kl. 10 á þriðjudagsmorgninum. Þegar allar höfðu fengið úthlutað herbergi var hafist handa við að koma farangrinum fyrir. Þá var tekin skoðunarferð um svæðið ásamt þeim foringja sem sér um hvert herbergi. Það eru margar sem eru að koma í Hlíðina í fyrsta sinn þannig að það var margt nýtt að sjá og kynna sér.
Hádegisverður samanstóð af dýrindis sveppasúpu og heimabökuðu brauði og tóku stelpurnar hraustlega til matar síns.
Að loknum hádegisverði kynntum við okkur útilistamanninn Goldsworthy og útbjuggum útilistaverk í náttúrunni með þann efnivið sem þar er að finna. Útkoman var dásamleg eins og myndirnar gefa til kynna. Þá var kominn kaffitími með heimabökuðum kökum og mjólk/djús.
Þá tók við hin fræga brennókeppni milli herbergja- fyrsti riðill auk frítíma sem stelpurnar notuðu til að kynna sér svæðið betur, nota aparóluna og fara í leiki.
Kvöldmaturinn var grjónagrautur ásamt nýbökuðu brauði.
Þá var kvöldvaka sem samanstóð af leikjum í íþróttahúsinu og eftir kvöldhressingu í formi ávaxta var hlýtt á hugleiðingu í setustofunni.
Þar sem veðrið lék við okkur var leyfilegt að bursta tennurnar í læknum sem flestar þáðu að gera og var ró komin á rétt fyrir miðnætti.
Stelpurnar eru glaðar og kátar og una sér vel og við höfum fengið frábært veður það sem af er.
Fleiri fréttir á morgun.