Þá koma fréttir af miðvikudeginum 6. ágúst hér í Vindáshlíð.
Stelpurnar voru vaktar við bjölluhljóm kl. 9. Margt var brallað þennan dag. Brennókeppnin var í fullum gangi fyrir hádegi ásamt vinabandagerð í setustofunni. Sólin skein sem aldrei fyrr 🙂
Að loknum hádegisverði- pítubrauð með meðlæti var haldið í skóginn þar sem Vigdís Klemenzdóttir smíðakennari kenndi okkur um trén í skóginum og hvernig við ættum að meðhöndla og nýta okkur hann. Einnig kenndi hún okkur helstu handbrögð við að tálga greinar og hófust allar handa við að tálga greinar sem þær völdu sér í skóginum. Þar sem sólin skein ákváðum við að hafa kaffitímann úti við og njóta þessara geisla sem við fengum.
Seinnipartinn fengum við Birgittu Sveinbjörnsdóttur danskennara til okkar og kenndi hún okkur þrjá ótrúlega skemmtilega hópdansa. Þvílíkt stuð sem var á mannskapnum- Happy var vinsælasti dansinn en einnig lærðum við salsa og tókum svo Grease lightning í lokin.
Hópur stúlkna undirbjó atriði til að sýna á kvöldvöku sem var að loknum kvöldverði sem samanstóð af plokkfiski og rúgbrauði. Atriðin voru frábær og allar skemmtu sér konunglega.
Að lokinni hugvekju mátti tannbursta í læknum og ró var komin á rétt eftir kl. 23.
Það voru sælar forstöðukonur sem lögðust til hvílu eftir þennan dásamlega dag með sólskini og glöðum stúlkum.
Kveðja- Halla og Hjördís