Fimmtudagurinn rann upp ljúfur og fagur.  Að loknum hefðbundnum morgunverkum var haldið áfram með brennókeppnina, vinabönd og útivist.

Hádegisverðurinn virtist vera uppáhaldsfæða margra, lasagne og í tilefni alþjóðlega salatdagsins var mikil keppni í að vera fyrsta borðið til að ljúka við allt salatið úr salatskálinni 🙂

Að loknum hádegisverði fór helmingurinn af hópnum út í skóg að tálga undir leiðsögn Vigdísar og bjuggu þær til yndislega fallega blýanta sem þær höfðu tálgað úr greinum.  Hinn hópurinn var við leiki í íþróttahúsinu, veggspjaldagerð, þythokkí, brennó o.m.fl.

Eftir kaffitíma þar sem sunginn var afmælissöngur fyrir eina stúlkuna sem fagnaði 11 ára afmæli sínu fengum við til okkar Egger Kaaber leiklistarkennara sem kom og kenndi stelpunum leikræna tjáningu.  Mjög skemmtilegt og allar undu glaðar við sitt.

Kvöldmaturinn var á sínum stað, pastaréttur með nýbökuðum bollum og að honum loknum tók við kvöldvaka þar stelpurnar léku af fingrum fram.  Að lokinni hugvekju voru allir hvattir til að drífa sig í háttinn en í stað hefðbundinna kvöldvenja höfðum við náttfatapartý sem innihélt, dans, leiki, leikrit og skrýtna heimsókn frá geimveru sem framleiddi frostpinna með undarlegum hætti.  Allar voru ánægðar og glaðar þegar þær lögðust á koddann sinn eftir viðburðarríkan dag.

Kveðja frá Höllu og Hjördísi