Upp var runninn veisludagur, síðasti heili dagurinn í Vindáshlíð.  Ekki nóg með það heldur höfðu allar stúlkurnar haft það af að gista þrjár nætur samfellt í Hlíðinni og eru því formlega orðnar Hlíðarmeyjar.  Af því tilefni fengu þær smá óhollustu með morgunmatnum sem vakti mikla lukku.

Dagurinn var hefðbundinn fram að hádegi, úrslit í brennókeppninni lágu fyrir og voru það stelpurnar í Barmahlíð sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir jafna og harða keppni milli herbergja.  Að loknum hádegisverði var komið að hópi tvö að tálga á meðan hinar stúlkurnar undu sér glaðar við leiki og útivist.  Veðrið var ágætt, nokkur vindur en engin rigning og má segja að við höfum verið ótrúlega lánsamar með veðrið þessa vikuna.

Að kaffitíma loknum höfðum við „vinagang“ þar sem opið var inn á herbergi stelpnanna og þær buðu upp á skemmtilega viðburði og/eða þjónustu.  T.d. var hægt að fá að vita allt um ástarmálin í framtíðinni, fá nudd, hárgreiðslu, förðun o.m.fl.  Þegar klukkan fór að nálgast 6 fóru stelpurnar að klæða sig í fínni fötin og gera sig klárar fyrir veislukvöldverðinn.  Þar settust þær að fallega skreyttum borðum með sínum foringja og fengu pizzur og djús.

Kvöldvakan var í höndum foringjanna sem tróðu upp með fjöldan allan af leikritum.  Kvöldvakan var í lengri kantinum þannig að þegar kvöldkaffi og hugleiðingu var lokið var klukkan langt gengin 12 á miðnætti.  Bænakonurnar voru því stutt á herbergjunum að þessu sinni og ró var komin á að mestu rétt eftir miðnætti.

Kveðjur Halla og Hjördís