Í gær var mikið stuð hjá okkur í góða veðrinu. Stelpurnar fóru í svakalegan leik sem kallast Biblíusmyglararnir þar sem þær þurftu að smygla Biblíum í neðanjarðarkirkjuna í landi þar sem kristin trú er bönnuð. Þær þurftu að útskýra fyrir Biblíusölumönnunum afhverju þær þyrftu á Biblíum að halda og hversvegna það væri þeim svona mikilvægt að koma Biblíum til fólksins. Við fengum margar skemmtilegar skýringar á þessu.
Lögreglan var svo á sveimi og tók fastar stelpur sem fundust á grunsamlegum slóðum. Þá var stelpnanna eina von að sannfæra löggurnar um ágæti trúarinnar og hversu gott það væri að trúa á Jesú. Oftar en ekki tókst þeim að sannfæra lögregluþjónana, líkt og Pétur og Páll gerðu á sínum tíma.

Eftir kaffið var svo farið út í íþróttakeppnir og brennómótinu haldið áfram. Í kvöldmatin var þessi líka dýrindis Mexíkóska kjúklingasúpa með snakki og osti og svo var farið út í Amazing Race – leik þar sem stelpurnar gátu safnað sér inn stigum með því að leysa ýmsar þrautir.

Þegar kvöldleiknum var að ljúka áttuðum við starfsstúlkurnar okkur á að stelpurnar voru að verða örmagna eftir þessa kraftmiklu dagskrá svo við fórum bara í kósý gírinn, höfðum notalega kvöld-helgistund og svo beint í háttinn. Bænakonurnar kíktu inn í herbergin sín og spjölluðu við stelpurnar og svo fengu allir að sofa til kl 10 í morgun.

Í dag stefnum við á að hafa aðeins minni dagskrá og meira af frálsum tíma til að leyfa þeim að safna smá 0rku fyrir fjör kvöldsins og næstu daga.

En stelpurnar halda áfram að vera jafn dásamlegar og fyrsta daginn og veðrið leikur við okkur.

Á morgun eru þrjár stúlkur hér sem eiga afmæli. Mig langar að bjóða foreldrum þeirra stelpna að hringja í þær á kvöldmatartímanum milli kl 18:30 – 19:00 til að óska þeim til hamingju með daginn. Við ætlum að sjálfsögðu að gera daginn eins skemmtilegan fyrir þær og við getum og höldum hér allsherjar afmælispartý sem allir hafa gaman af.

Með bestu kveðju
Anna Arnardóttir
Forstöðukona