Í dag eru stelpurnar formlega orðnar Hlíðarmeyjar en samkvæmt skilgreiningu er Hlíðarmey stúlka sem sofið hefur þrjár nætur í röð í Vindáshlíð. Af því tilefni var Kókópöffs í morgunmat (ásamt hollari valkostum).

Þrjár Hlíðarmeyjar eiga afmæli í dag og er stefnan tekin á afmæliskaffi í drekkutímanum og heyrst hefur að eldhúsmeyjarnar séu að skreyta tertur afmælisbörnunum til heiðurs.
Eins og í gær vil ég benda foreldrum afmælismeyjanna á að hægt er að hringja í þær til að óska þeim til hamingju með daginn meðan þær borða kvöldverð milli kl 18:30-19:00 (það er eini tíminn sem ég er 100% viss um að vita nákvæmlega hvar þær eru til að koma þeim í símann (hádegisverður og kaffi verða þétt setin af skemmtidagskrá sem þær vilja ekki missa af).

Í gær slöppuðum við af og höfðum frjálsan tíma eftir hádegið með fullt af tilboðum í gangi. Nokkrar fóru í gönguferð upp á brúðarslæðu fossum, nokkrar fóru í listasmiðjuna, nokkrar léku í útileikjum og aðrar dunduðu sér í skóginum, læknum, íþróttahúsinu, aparólunni, hnýttu vinabönd, spjölluðu inni á herbergjum og nutu lífsins.

Eftir kvöldverðinn var farið niður í kvöldvökusal þar sem Vindáshlíð Got Talent fór fram. Skemmst frá því að segja að 61 stelpa af 83 tók þátt í þessari stórskemmtilegu hæfileikasýningu og er það met-þátttaka í ár. Þvílíkir hæfileikar á einum stað! Hér var sungið, dansað, leikrit leikin og fólk tekið upp á svið til að taka þátt í leikjum. Dómarar kvöldsins voru afar skrautlegir og dáðust svo að hæfileikum þátttakenda að allir fengu 10!

Eftir ávaxtastund og hugleiðingu var stutt stund á bænaherbergjum og svo fengu þær sem vildu (sem voru nánast allar) að fara niður með sængur og kodda, leggjast á flatsæng og horfa á Highschool Musical fyrir svefninn. Smám saman fækkaði í bíósalnum og fjölgaði í rúmunum og eftir að myndasýningu lauk voru allar snöggar í bólin og sofnaðar innan fárra mínútna.

Í morgun komu svo foringjarnir dulbúnir sem stjörnurnar úr Higschool Musical og vöktu stelpurnar með söng og dansi – og heyrst hefur að þær ætli að dansa fyrir þær í hádeginu líka.
– Undirrituð verður að játa að það eru sönn forréttindi að fá að starfa í sumarbúðunum því hvergi annarsstaðar en í Sumarbúðum KFUM og K hef ég kynnst svona skemmtilegum starfsfólki, ég meina hvar annarsstaðar þekkist það að starfsfólkið standi óumbeðið í setustofunni langt fram á nótt og æfi dansspor og velji sér búninga til að geta glatt stelpurnar í hádeginu? Algerir snillingar! Ég er allavega mjög spennt að sjá útkomuna.

Ég gleymdi líka að minnast á það að fyrr í vikunni vorum við með brunaæfingu hér í Vindáshlíðinni og á innan vði 90 sek. voru allar stúlkurnar komnar út á tún í raðir eftir herbergjum og allir foringjar með þeim – Það er sko enginn að fara að brenna hérna inni ef eitthvað gerist.

Ég vil líka fá að taka það fram að þessar stelpur eru alveg stórkostlegar. Ekkert drama, ekkert vesen, bara notalegheit, leikir og gaman og mér þykir alveg sérstaklega vænt um að þær virðast ekkert vera að flýta sér að fullorðnast líkt og oft vill gerast á þessum aldri, þær bara njóta þess að vera stelpur og leika sér og hafa gaman. Dásamlegur hópur alveg hreint.

Með bestu kveðju
Anna Arnardóttir
Forstöðukona

p.s. í dag hafa nokkrir foreldrar hringt og haft áhyggjur af því að dætur þeirra séu ekki að sjást á myndum. Ég vil fullvissa ykkur um að þær eru allar hér á svæðinu og allar eru að taka þátt í því sem er í gangi – einhvernveginn hafa þær bara ekki náðst á mynd, við bætum úr því í dag.