Í gær var mikið Highschool Musical þema hjá okkur, foringjarnir klæddu sig upp í búninga, sungu og dönsuðu atriði úr myndinni fyrir stelpurnar í hádegismatnum og kvöldmatnum. Þetta vakti að sjálfsögðu mikla lukku og allir sungu með.

Eftir hádegismatinn fórum við í Hermannaleikinn – þetta er leikur sem kennir stelpunum að setja sig aðeins í fótspor flóttamanna á stríðshrjáðu svæði. Í rúman klukkutíma fá þær að upplifa hvernig er að vera flóttamaður. Herbergin eru fjölskyldur á flótta sem þurfa að komast í flóttamannabúðir á ákveðnum stað. Á leiðinni eru öruggar stöðvar en um allan skóginn eru illa útlítandi hermenn á ferli (starfsstúlkurnar) sem stundum fanga stelpurnar og setja í fangelsi. Þar er skvett yfir þær köldu vatni og þær hræddar örlítið. Enginn þurfti að taka þátt frekar en þær vildu og leikurinn var útskýrður fyrir þeim áður en þær fóru af stað. Flestar stelpurnar ákváðu að taka þátt en nokkrar stóðu í gluggunum og fylgdust með úr öruggri fjarlægð.
Leikurinn gekk mjög vel og allir voru í miklu stuði eftir hann og við ræddum svolítið um hvernig það væri ef þetta væri í alvöru lífið okkar. Ef við værum flóttamenn í stríðshrjáðu landi þá væri þetta svona í alvöru nema við værum í raun og veru skíthræddar við hermennina því það væru ekki konur sem í raun þykir vænt um okkur. Þetta vakti stelpurnar til umhugsunar og í lokin biðjum við svo fyrir fólki og börnum sem lifir svona lífi í raun og veru.

Gærkvöldið var svo rólegt framan af, kósý kvöldvaka í kirkjunni og svo kaffihúsakvöld í matsalnum þar sem kveikt var á kertum og allir fengu kökusneið og eina ískúlu.
Svo var farið inn á herbergi að gera sig reddý í háttinn og bænakonurnar komu inn og fengu að vera í rúman hálftíma á herbergjunum sínum því stelpurnar höfðu kvartað undan að fá of lítinn tíma með bænakonunum sínum.

Þegar bænakonurnar komu út, hlupu þær upp og skelltu sér í náttfötin og ruddust svo niður með látum og allir fóru af stað í náttfatapartý!!!

Þá var sko dansað á borðum, farið í leiki, við fengum heimsókn frá Bíbí Bjargvætti frá Bakkafirði og lítilli grænni Geimveru sem étur allt sem hún sér, sungum um litla Óla í skóginum, dönsuðum í rigningu og margt fleira. Allir fengu svo frostpinna og undirrituð las svo sögu um hana Júlíu úr bókinni Ég og Guð erum vinir.

Í dag er síðasti heili dagurinn okkar hér í Ævintýraflokki í Vindáshlíð og því verður fagnað á ýmsan máta. Úrslitin í brennókeppninni eru að verða ljós á meðan ég skrifa þessi orð – en núna eru Lækjahlíð og Gljúfrahlíð að keppa úrslitaleikinn. Á morgun fá svo sigurvegarar að keppa við foringjana 😉

Á eftir verður svo marserað, hárgreiðslustofa forstöðukonunnar verður opnuð, allir fara í spariföt, hátíðarkvöldverður verður borinn á borð (lesist: pizza!!!)  og svo verður kvöldvaka þar sem foringjarnir fara á kostum í hinum ýmsu atriðum.

Á morgun er svo komið að lokum þessa dásamlega flokks, tíminn hefur flogið áfram og mér finnst eins og vikan eigi bara að vera hálfnuð, það verður með söknuði í hjarta sem ég kveð þessar stórkostlegu stelpur og vonast til að hitta þær allar aftur á næsta ári.

Minni foreldra á að rútan kemur að Holtavegi 28 (sama stað og við fórum frá) kl 16 á morgun – laugardag.

Með kærri kveðju og hjartans þökk fyrir að hafa fengið að vera með stelpunum ykkar
Anna Arnardóttir
Forstöðukona