Við vöknuðum við bjartan himinn og hlýja golu í morgun. Stúlkurnar sváfu til klukkan níu enda þreyttar eftir fjörið í gærkvöldi. Eftir hefðbundin morgunverk eins og þvo sér, bursta tennur og greiða hár komu þær í morgunmat sem að þessu sinni var veglegri en hina morgnana því allar stúlkur sem hafa sofið 3 nætur í Vindáshlíð í flokki eru orðnar Hlíðarmeyjar. Eftir fánahyllingu og morgunstund með Biblíufræðslu var útivist, brennó og íþróttakeppni. Að þessu sinni var keppt í rúsínuspýtingum sem felst í að spýta rúsínu eins langt og hægt er. Var fádæma góð þátttaka og ljóst að margar kunnu þetta mjög vel. Í hádegismat var grjónagrautur með slátri og tilheyrandi. Það var frábært að sjá hvað þær borðuðu vel. Í útiverunni eftir hádegi var hlíðarhlaup sem felst í að hlaupa frá húsinu niður að hliði á sem stystu tíma. Allar voru vel smurðar sólarvörn og vatnsbrúsar fylltir áður en lagt var af stað. Frá hliðinu var svo farið í gönguferð um nágrenni réttarinnar og í leiki. Heima við skála biðu síðan svalardrykkir, nýbakaðar kökur og epli sem stelpurnar nutu úti í glampandi sól og hita. Eftir kaffi var áfram íþróttakeppni og brennó og þrjú herbergi undirbjuggu leikrit og leiki fyrir kvöldvöku. Í kvöldmatinn voru kjötbollur með kartöflumús, grænmeti og brúnni sósu. Þetta er uppáhaldsmatur margra og var mjög vel borðað. Eftir kvöldvöku fór allur hópurinn út í skóg og sungu við varðeld, fengu kvöldhressingu og heyrðu hugleiðingu úr Guðs orði. Þetta var notarleg stund og góður endir á mjög sólríkum og björtum degi og allir hér sammála um að Vindáshlíð hefur í dag skartað sínu fegursta.