Stúlkurnar vöknuðum klukkan níu í morgun og voru nokkrar alveg til í að sofa aðeins lengur. Allar mættu þó hressar í morgunmat, fánahyllingu og svo á morgunstund. Í kjölfarið fór fram úrslitakeppnin í brennó og en líka íþróttakeppni sem í dag fólst í að gera eins margar burpies (leggjast á grasið standa upp og hoppa upp í loft með hentur upp í loft) og mögulegt er á einni mínútu. Þetta var mjög skemmtileg keppni. Í hádegismat var lasagna sem þakklátir magar tóku fúslega við enda þurfa kraftmiklar stelpur mikla næringu. Eftir hádegismat keppti svo vinningslið brennókeppninnar við starfsmennina, sem mættu skreyttir til leiks og rétt mörðu sigur J
Eftir drekkutíma hófst óvænt vatnsstríð og var brunaslangan á eftir hæðinni mikilvægt vopn í þeim leik. Þegar allar voru komna inn og í þurr föt hófst hárgreiðslukeppni. Í kjölfarið klæddu stúlkurnar sig upp og mættu í veislumatinn í skreyttum sal við notarleg kertaljós. Þar runnu gómasætar heimagerðar pizzur ljúflega niður með djús og vatni. Afhentar voru viðurkenningar fyrir íþróttaafrek einstaklinga og herbergja. Þá hófst kvöldvakan sem samanstóð af leikritum, auglýsingum og sjónvarpi Vindáshlíðar, allt saman heimagert grín með söng og gleði. Eftir langa kvöldvöku settustu stúlkurnar í setustofu og hlustuðu á hugleiðingu úr Guðs orði, gæddu sér svo á ís, eplum og appelsínum. Að endingu fóru þær sem vildu út í læk að bursta tennur. Það voru því sælar og glaðar stúlkur sem gengu frekar seint til náða eftir viðburðaríkan dag í frábæru veðri.