Í dag var síðasti dagurinn í þessum flokki. Stúlkurnar voru vaktar klukkan níu og fengu morgunmat og hylltu síðan fánann okkar. Að því loknu pökkuðu þær öllu sínum pjönkum og báru farangurinn út í sólina. Um klukkan ellefu hófst svo hópvinna fyrir Guðsþjónustu í Hallgrímskirkju hér í Vindáshlíð. Einn hópurinn sá um skreytingar, annar söng, þriðji sýndi helgileik og sá fjórði hafði umsjón með almennum undirbúningi. Hádegismatur fór fram úti og gæddu stúlkurnar sér á gómsætum grilluðum pylsum. Eftir hádegismat fóru nokkrar í leiki og hófst svo Guðsþjónustan og lokastundin klukkan hálf tvö. Þegar henni var lokið var boðið upp á hressingu svo enginn færi nú svangur heim.

Allt er gott sem endar vel og nú kveðjum við Vindáshlíð að sinni. Þessi vika hefur verið frábær og stúlkurnar, bæði yngri og eldri, hafa verið einstaklega góður hópur. Við þökkum fyrir samveruna og biðjum Guð að blessa hverja og eina, og vonum að minningin um Vindáshlíð og orð Guðs sem þar er boðað búi í hjörtum okkar allra.
Með góðri kveðju og þökk fyrir að hafa fengið að vera með ykkur,

Auður Pálsdóttir
forstöðukona