Nýlega hefur borið mikið á fréttum af mýbiti á suðvesturhorni landsins þar sem sumarbúðirnar okkar Vatnaskógur, Vindáshlíð og Ölver eru staðsettar. Okkur hafa borist fregnir af slíkum bit tilfellum hjá starfsfólki og börnum sem hafa dvalið í sumarbúðunum, bæði í síðustu viku og þessari.

Þetta er hluti af náttúrunni og lítið hægt að gera. Þó reynum við að vera með fyrirbyggjandi ráðstafanir eins og kostur er. Við mælum með að börnin klæðist langermabolum, háum sokkum og síðum buxum, einnig geta flugnanet eða flugnavarnarsprey komið að góðum notum.

Ef bit á sér stað má búast við óþægilegum kláða sem í flestum tilfellum er hægt að róa með aloe vera kremum, Afterbite stifti, ofnæmislyfinu Histasín/Lóritín, eða sterakremi eins og Mildison. Hægt er að láta börnin hafa þessi úrræði meðferðis þegar haldið er í sumarbúðirnar. Þó má geta þess að ofantalin úrræði eru flest í boði í sumarbúðunum. Kláðinn virðist líða hjá eftir nokkra daga og bitin gróa. Athugið að ef að aðili er illa haldinn af bitum mælum við með því að leitað sé ráða læknis.

Við vitum að Náttúrufræðistofnun Íslands er að skoða þetta sérstaklega og fylgjumst við með fréttum þaðan.

Starfsemin heldur áfram óbreytt og við lítum bara á þetta sem áskorun sem við tökumst á við.