Á þriðja og fjórða degi var mikið fjör. Hefðbundin dagskrá með íþróttum, setustofu verkefnum, og brennó keppni, hafa stúlkurnar m.a. farið í Hveitileik, verið Biblíusmygglarar, átt stund í kirkjunni, haldið náttfatapartý, og horft á bíómynd.
Hveitileikurinn var eftir hádegið á þriðja degi. Þegar verið var að plana gönguferð á Sandfell kom bakarinn okkar alveg miður sín inn á fundinn, því það var búið að stela öllu hveitinu okkar þannig að hún gat ekki bakað fyrir okkur. Um leið vildi svo til að einn af foringjunum hafði fundið e.k. illa skrifað hótunarbréf úti í skógi, þar sem m.a. kom fram að við myndum aldrei fá hveitið aftur! Það voru að sjálfsögðu send út björgunar- og leitarlið sem þurftu að leysa ýmsar þrautir til að finna hveitið, en það reyndist vera í höndum tveggja trölla, sem skoruðu á stelpurnar í danskeppni með hveitið sem sigurlaun. Þetta fór allt vel að lokum og hveitið komst í hús við mikinn fögnuð. Stúlkurnar skemmtu sér mjög vel í þessum leiðangri.
Eftir kvöldkaffi voru foringjarnir svo með skemmtun fyrir stúlkurnar í setustofunni þar sem þær bæði léku leikrit og fóru í alls konar mjög skemmtilega söng- og þrautaleiki við mikinn fögnuð. Síðan var tannburstun og tilheyrandi og svo komu bænakonurnar inn á sín herbergi. Eftir skamma stund var svo náð í bænakonuna í „símann“, sem var náttúrulega gabb og þær drifu sig þá í að klæða sig í náttföt og mála sig í framan. Síðan fóru þær inn á ganginn með hávaða, látum og pottaslætti og kölluðu á stelpurnar í náttfatapartý í matasalnum. Í náttfatapartýinu var mikið fjör þar sem allar stelpurnar dönsuðu og sungu upp á borðunum. Stemmingin var alveg gífurleg, svo ekki sé nú talað um hávaðann þegar 85 stelpur syngja með eins hátt og lungun leyfa.
Þar sem þær fóru ekki að sofa fyrr en kl. ca. 1 eftir miðnættið fengu þær að sofa fram til 9:30 um morguninn og eftir hádegið fóru þær í leik sem heitir Bible Smugglers. Fyrir leikinn er þeim sagt frá því að í mörgum löndum í heiminum er ekki leyfilegt að eiga Biblíur og að til sé kristið fólk sem leggi sig í mikla hættu við að smygla Biblíum til neðanjarðar-kirkna í þessum löndum. Í þessum leik þurfa þær að finna „Biblíur“ (hvíta steina með krossi) og koma þeim fram hjá hermönnum og landamærvörðum til sinnar neðanjarðarkirkju (fötu) og á leiðinni eiga þær á hættu að vera stoppaðar og yfirheyrðar og jafnvel stungið í fangelsi.
Um kvöldið var hugvekjustundin í kirkjunni og að kvöldkaffi loknu var farið í skotbolta í íþróttahúsinu á meðan undirbúið var bíómyndakvöld. Stúlkurnar komu sér fyrir með sængurnar sínar á dýnum á gólfinu, fengu popp og horfðu saman á myndina Bend it Like Beckham. Þær lifðu sig algjörlega inn í myndina og ýmist andvörpuðu, fögnuðu, eða hlógu á „réttum“ stöðum. Að myndinni lokinni var svo farið (seint) að sofa eftir skemmtilegan dag.