Þriðjudagurinn 7. júlí

Stelpurnar voru vaktar klukkan hálf níu og morgunmatur var klukkan níu. Í hverjum flokki Vindáshlíðar er innanhússkeppni sem snýst um að halda herberginu sínu snyrtilegu út flokkinn. Veittar eru viðurkenningar fyrir allar keppnir í lok flokksins. Þessar stelpur eru greinilega metnaðarfullar því ræstirinn okkar sem fer yfir herbergin lofsamaði snyrtimensku hópsins.

Eftir morgunmat fóru þær á fánahyllingu og sungu fánasönginn meðan fáninn var dreginn að húni og svo var Biblíustund í kvöldvökusalnum. Þar báðum við morgunbæn, sungum lög, flettum upp í Nýjatestamenntinu og fórum í uppflettikeppni. Eftir stundina var opið í sturturnar, keppt í brennó, opið í böndin í setustofunni og keppt í húshlaupi (tekinn tíminn meðan hlaupið er kringum húsið) fram að hádegismat.

Í hádegismat voru kjötbollur, kartöflur og grænmeti. Eftir mat var farið í göngu að Brúðarslæðu (dásamlegur foss) því veðrið var svo dásamlegt, sólin skein í heiði og ekki ský að sjá. Þær tóku með sér handklæði og fengu að vaða og busla. Ég er að segja ykkur það kæru foreldrar að þetta er svo dásamleg paradís hérna. Ef þið trúið því ekki þá skulu þið bara skoða myndirnar 😉

Þegar heim í Hlíð var komið tók á móti þeim æsispennandi vatnsstríð og foringjar jafnt sem stúlkur urðu holdvot og skemmtu sér gríðarlega.
5fl_d2

Í kaffinu fengu þær dásamlegar súkkulaðibitaklessukökur a la Andrea og bananabrauð og svo var keppt í brennó, broskeppni, opið fyrir bönd í setustofunni og þrjú herbergi undirbjuggu atriði fyrir kvöldvöku.

Það er alltaf gaman á kvöldvökum og stelpurnar syngja dátt. Það er vinsælt að syngja rúllandi rúllandi og Vindáshlíðarsöngurinn er alltaf fyrsta óskalagið þeirra. Söngurinn ómar um húsið og greinilegt að stelpurnar una sér vel. Í tilefni bongóblíðu dagsins höfðum við kvöldkaffið og hugleiðinguna úti í skógi og kveiktum varðeld sem stelpurnar söfnuðu í sjálfar úr greinum og spreki úr skóginum. Þar sungum við róleg lög, grilluðum sykurpúða og hlýddum á Ástu sem var með hugleiðingu kvöldsins. Saman enduðum við daginn á því að takast í hendur og segja „Elsku Guð, takk fyrir daginn. Hann var góður“. Því hann var það svo sannarlega.

Vel gekk stelpunum að sofna enda langur og viðburðaríkur dagur að kveldi kominn.

Hér gerast ævintýrin <3