Miðvikudagurinn 8. júlí

Vakið var klukkan hálf níu og morgunmatur klukkan níu. Síðan fóru stelpurnar upp að fána og sungu fánasönginn. Þaðan fóru þær beint í kvöldvökusalinn þar sem forstöðukonan tók á móti þeim með Biblíustund. Hún sagði stúlkunum frá því hve samviskubit getur verið óhollt og mikilvægt að dvelja ekki lengi í eftirsjá. Þegar við gerum eitthvað af okkur eigum við að biðjast fyrirgefningar og vinna í að læra af mistökum okkar. Mistök geta verið dýrmætt tækifæri til lærdóms. Síðan hélt uppflettikeppnin áfram og tvö herbergi kepptu í viðbót. Stelpurnar fá uppgefið bænavers úr Nýjatestamenntinu sem þær eiga að finna. Hvert herbergi keppir innbyrðis og síðan munu þær sem voru fljótastar keppa sín á milli.

Eftir Biblíustund var keppt í brennó og kraftakeppni; opið var í sturturnar og bönd í setustofunni fram að hádegismat. Í hádegismat var hakk og spagettí og grænmeti sem var mjög vinsælt.

Eftir hádegismat fengur stelpurnar að velja um þrenns konar gönguferð. Vegna þess hve veðrið var gönguvænt var bætt við hið venjubundna val og boðið upp á Írafellsgöngu. Helmingur stelpnanna valdi hina vinsælu Sandfellsgöngu, tæpur helmingur Írefellsgöngu og 10 stelpur fóru hringinn í kringum Sandfell og fengu að vaða í Sandfellstjörn. Hvert öðru skemmtilegra og gaman fyrir þær stelpur sem hafa komið oft og alltaf farið á Sandfell að prófa Írafell. Við búum svo vel þennan flokkinn að vera með mikinn göngugarp, hana Ástrósu, í foringjahópnum sem elskar Írafell og því tilvalið í ljósi veðurs 🙂

Eftir göngurnar beið þeirra kaffitími sem var í formi hlaðborðs og því gat hver hópur komið og fengið sér um leið og hann kom til baka. Fram að kvöldmat kepptu þær í brennó, tóku áfram þátt í kraftakeppnini, sturtur voru opnar og einnig bönd í boði í setustofunni.

Í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk, brauð og álegg og strax á eftir var kvöldvaka í kvöldvökusalnum. Stelpunar hlógu mikið að atriðunum en þetta er dýrmætt tækifæri fyrir stelpurnar í flokknum til að stíga á stokk og æfa sig í því að koma fram. Mikið var sungið og hlegið alveg fram að kvöldkaffi. Eftir að hafa fengið ávexti og smá matarkex flutti Siddý foringi fallega hugleiðingu um Guð og sköpun hans áður en þakkað var fyrir daginn.

Við höfum verið svo stórkostlega heppin með veður og því enn og aftur í boði að fara að bursta úti í læk fyrir svefninn. En síðan þegar stelpurnar biðu eftir bænakonunum sínum inni á herbergi brá þeim heldur en ekki í brún því inn ganginn þustu foringjarnir í náttfötum, málaðar með bleikar kinnar og freknur og tígó bundin með klósettpappír. Það var komið náttfatapartí!

Þær þustu allar inn í matsalinn í dans- og söngpartí þar sem dansað var í hverju horni og jafnvel upp á borðum. Jafnt dvalarstúlkur og foringar sungu hástöfum og dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn. Síðan tók við skemmtidagskrá foringja inn í setustofu með hefðbundnum náttfatapartýatriðum eins og Heibalúbba, Úle frá Norge, Barnahákarl og La Banana svo eitthvað sé nefnt, en alls ekki upptalið. Forstöðukonan gerði heiðarlega tilraun til að róa liðið niður meðan þær snæddu ís og síðan var loksins bænó inni á herbergi með bænakonunni.

Langur dagur að kveldi kominn. Hér er gleðin við völd.