Fimmtudagurinn 9. júlí
Í morgun var útsof því dvalarstúlkurnar fóru aðeins seinna að sofa í gærkvöldi vegna náttfatapartísins. Í matsalnum tók á móti þeim hátíðarmorgunverður því nú hafa þær sofið í þrjár nætur í Vindáshlíð. Þær hafa verið minntar á þetta frá fyrsta degi og mikil tilhlökkun skapast. Hefðin er sú að eftir að hafa sofið þrjár nætur í Vindáshlíð ert þú formlega orðin Hlíðarmey! Það verður aldrei frá þér tekið! Gleði og gaman!
Þær fóru síðan á fánahyllingu og beint á Biblíustund og þar hélt uppflettikeppnin áfram. Fram að hádegismat var keppt í brennó, kraftakeppnin hélt áfram, opið var í sturtur og bönd í boði í setustofunni. Í hádegismat voru síðan svakalega grinilegir hamborgarar og franskar.
Hér eru þær niðri við hliðið 🙂
Eftir hádegismat var Hlíðarhlaup niður að hliði og Hekla íþróttaforingi tók tímann. Fljótasta stelpan hljóp þetta á rétt rúmum fjórum mínútum. Ótrúlegt alveg. Þaðan gengu þær niður að réttunum og fóru í hina sívinsælu Vindáshlíðar-réttarleiki með foringjunum.
Í réttunum er gaman, þar leika allir saman 😉
Þegar heim í Hlíðina kom fengu þær dýrindis sjónvarpsköku og pizzasnúða í kaffitímanum og síðan var boðið upp á sturtutíma, bundin vinabönd í setustofunni, keppt í brennó og kraftakeppnin hélt áfram. Þær stelpur sem áttu að sýna á kvöldvökunni fengu tækifæri til að æfa sig fyrir kvöldið og máta búninga í flottu búningageymslunni sem við eigum hér fyrir atriðin sín.
Í kvöldmat var grjónagrautur með lifrarpylsu og smá frjáls tími eftir það fram að kvöldvöku. Á kvöldvökunni var stuð eins og alltaf og sérstaklega mikið hlegið í kvöld að atriðum stelpnanna svo bergmálaði í húsinu. Stúlkurnar fengu svo perur, epli og smá matarkex í kvöldkaffinu og svo var róleg stund í setustofunni. Aldís foringi sagði stelpunum söguna um Stradivaríus fiðluna sem á að minna þær á hversu einstakar þær eru hver og ein. Það var svo yndislegt veður að þær máttu bursta úti í læk fyrir svefninn og svo endaði bænakonan þeirra daginn með þeim inni á herbergi.
Það er mjög þakklátt hvað við erum heppnar með veður þennan flokkinn.
Sól í hjarta, sól í sinni. Sól bara sól <3