Föstudagurinn 10. júlí
Upp er runnin veisludagur!
Við vöknuðum að venju klukkan hálf níu og stúlkurnar fóru í morgunmat klukkan níu. Þaðan fóru þær á fánahyllingu og því næst á Biblíustund í kvöldvökusalnum. Uppflettikeppnin hélt áfram og forstöðukonan sagði meira frá Nýja testamentinu, Guði og Jesú. Í þetta skiptið fékk hún sjálfboðaliða úr stúlknahópnum til að hjálpa sér og lét þær leika ýmis leikræn hlutverk.
Á veisludegi eru undanúrslitakeppnirnar í brennó og rétt fyrir hádegismat var brennóforinginn búinn að reikna út hverjir voru orðnir brennómeistarar.
Í hádegismat var lasagna með alvöru bechamelsósu takk fyrir og salat. Stúlknahópurinn fór í göngu eftir mat að Pokafossi, fékk að heyra aðeins um söguna á bak við hann og svo var farið í útileiki. Veðrið þennan flokkinn er engu líkt og dásamlegt að nýta það með góðri útiveru á hverjum degi.
Í kaffitímanum var fjólublá súkkulaðikaka og fram að veislukvöldmat var Hárgreiðslukeppni Vindáshlíðar, Göngugata og vinadekur Vindáshlíðar. Þá bjóða stelpurnar hver annarri í heimsókn í sitt herbergi og bjóða upp á hárgreiðslu, axlanudd og fleira. Fljótlega voru miðar komnir á hurðirnar og biðlistar urðu lengri og lengri en náðu allir að klárast fyrir veislumatinn; allir slakir í öxlunum og með fallegar greiðslur fyrir kvöldið. Í kvöldmat var veislupítsa og Vindáshlíðarsaft og verðlaun voru afhent sigurvegurum íþróttakeppnanna, innanhússkeppninnar, brennómeistarar verðlaunaðir, íþróttadrottningin krýnd, ratleiksmeistarar verðlaunaðir og alls kyns verðlaun veitt fyrir hárgreiðslur í hárgreiðslukeppninni; t.d. fyrir frumlegustu hágreiðsluna og blómlegustu hárgreiðsluna.
One Direction mætti í veislumatinn og tók lagið fyrir afmælisstelpu dagsins sem stóð uppi á stól á meðan þeir dönsuðu og sungu fyrir hana. Þessu gleymir hún aldrei.
Það var frjáls tími fram að veislukvöldvöku en þá stigu foringjarnir á stokk og voru með hvert atriðið á fætur öðru og kitluðu hverja hláturtaug sem við áttum. Þeir enduðu á því að dansa og syngja Vindáshlíðarsöng sumarsins sem stelpurnar lærðu strax.
Forstöðukonan leiðir rúllandi, veltandi, standandi, sitjandi á veislukvöldvöku 🙂
Kvöldkaffið var uppi í setustofu, stelpurnar fengu ís og Helga sagði þeim söguna um froskinn sem gat. Hún talaði um hugrekki og getu okkar sjálfra til að efla okkur og tækifærin sem felast í því að stíga út fyrir þægindarammann okkar. Forstöðukonan bauð stelpunum að bursta úti í læk ef þær vildu og svo enduðu þær á bænó með bænakonunum sínum.
Svo á morgun er brottfarardagur.
Það verður mörgum ljúfsárt að kveðja Hlíðina, það er auðséð <3