Já hér hefur svo sannarlega verið mikið fjör og mikið gaman – svo mikið að undirrituð hefur ekki haft tíma til að setja inn fréttir nema einu sinni alla vikuna – og kominn fimmtudagur! Þvílíkt og annað eins.

Á þriðjudaginn var heldur en ekki fjör á bænum þegar Friðrik Dór kom allt í einu hlaupandi inn á kvöldvöku og söng fyrir stelpurnar. Þegar hann var búinn að syngja og spjalla aðeins við þær fengu allir að koma upp á svið og fá hópmynd af hverju herbergi fyrir sig með kappanum í miðjum hópnum. Nokkrar „sjálfur“ voru svo líka teknar með öðlingnum. Ég held reyndar að foringjarnir hér uppfrá hafi misst sig aðeins meira í fagnaðarlátunum en stelpurnar – en það munaði þó ekki miklu.

Í gær lögðum við svo land undir fót, fengum rútu hér uppeftir og skruppum í kvöldsund í sundlauginni að Hlöðum í Hvalfirðinum. Það var afar ljúft að chilla í heita pottinum og spjalla, aðrar kusu að dansa og fara í leiki í stóru lauginni en skemmtilegast var að fara í litlu kringlóttu laugina við litlu rennibrautina sem er bara vaðlaug og þar hljóp hópurinn í hringi til að mynda sterka hringiðu og henntu sér svo allar í einu ofan í laugina og flutu hring eftir hring. Starfsfólkið að Hlöðum var svo yndislegt að halda lauginni opinni klukkutíma lengur en venja er hjá þeim til að við gætum skemmt okkur svolítið góðan tíma.

Annars hefur dagskráin gengið sinn vanagang, mikið um vinabandagerð og einkennilegar íþróttakeppnir, brennókeppnin er á sínum stað, hópleikir þar sem verið er að leysa ýmiss verkefni, bíókvöld, biblíulestrarnir eru á sínum stað og stelpurnar taka þátt í öllu með bros á vör. Þetta er frábær hópur sem er hérna núna og virkilega gaman að spjalla við þær og vera með þeim. Engin dramatík í gangi eins og vill oft koma upp þegar svona margar unglingsstelpur koma saman – bara gleði og elskulegheit – og smá fíflagangur og stríðni, en bara í góðu.

Í morgun voru allar vaktar með náttfataparý og hlaupið var inn í matsal þar sem dansað var á borðun og allir fengu ís – núna fer hádegismatur að hefjast og á eftir verða allskyns hópar opnaðir þar sem stelpurnar mega velja sér stöð til að vera á. Meðal annars verður boðið upp á spjallhorn, sönghóp, body-stepp, zumba og margt fleira.

Myndir eru að koma jafn óðum inn á myndasíðuna okkar en myndavélin okkar bilaði svo flestar eru myndirnar á símum starfsmanna sem hægir aðeins á því að auðvelt sé að nálgast þær og skella á netið, en þetta kemur allt.

Með bestu kveðju
Anna Arnardóttir
Forstöðukona