Þessar vikurnar er sumarstarfsfólk KFUM og KFUK að gera sig tilbúið fyrir spennandi sumar í sumarbúðum félagsins. Á annað hundrað starfsmanna munu í sumar bjóða upp á fjölbreytta og spennandi dagskrá fyrir börn og unglinga á öllum aldri. Allt starfsfólk hefur tekið fjölbreytt námskeið og fengið ítarlega fræðslu á vettvangi KFUM og KFUK og á vegum Æskulýðsvettvangsins.

Starfsmannahópurinn samanstendur af fólki á öllum aldri með fjölbreytta og ólíka reynslu. Í hópnum eru nýliðar sem eru í efri bekkjum menntaskóla og háskólanemar. Meðal starfsmanna eru foreldrar og félagsráðgjafar, prestar og háskólakennarar. Einhverjir í starfsmannahópnum vinna sína fyrstu viku í sumar, aðrir hafa yfir 25 ára reynslu í sumarbúðastarfi.

KFUM og KFUK á Íslandi er stolt af þeim mikla fjölda hæfileikaríkra ungmenna sem vinna í sumarbúðunum á hverju sumri. Félagið er jafnframt þakklátt fyrir reynsluboltana sem mæta til leiks ár eftir ár til að miðla af reynslu og þekkingu, en jafnframt tilbúin til að taka þátt í að þróa og bæta enn frekar það frábæra starf sem unnið er í sumarbúðunum okkar.

Hægt er að nálgast lista yfir þá sumarstarfsmenn sem nú þegar hafa skilað inn mynd og stuttri kynningu á http://kfum.is/blog/staff-category/sumarstarfsfolk/.