Fríður hópur kátra og pínulítið spenntra stúlkna mætti við rútuna á Holtavegi milli 8.30 – 9.00, en þá var haldið í Vindáshlíð í ágætu veðri. Þegar upp í Vindáshlíð kom, um tíuleytið, var farið yfir allar öryggisreglur, brunavarnir og hefðir í Hlíðinni, og raðað í herbergin. Þetta gekk allt með ágætum. Stelpurnar komu sér svo fyrir í herbergjunum og spjölluðu saman, en þá var komið að hádegismat. Við fengum dýrindis blómkálssúpu og brauð í hádegismat. Eftir matinn var ratleikur sem leiddi stelpurnar frá einum stað á annan og kynnti um leið fyrir þeim Vindáshlíðarsvæðið. Síðan unnu sumar með garn í setustofu og aðrar léku sér í íþróttahúsi, aparólu eða apabrú.
Í kaffitímanum var boðið upp á nýbakað kryddbrauð og kanilsnúðar að hætti Berglindar og í anda Vindáshlíðar. Eftir kaffi hófust svo íþróttaæfingar, bæði hlaup og brennibolti. Í kvöldmat var boðið upp á pastarétt með ostasósu og grænmeti. Fyrsta kvöldvakan fór fram í íþróttahúsinu þar sem stelpurnar skvettu úr klaufunum í ýmis konar leikjum. Þá var róleg stund með hugleiðingu og síðan undirbúningurinn undir svefninn.