Mánudagur 13. júní 2016
Glaðar og spenntar stúlkur fóru frá þjónustumiðstöð KFUM og KFUK á Holtavegi kl. 9 og renndu í hlað í Vindáshlíð tæpum klukkutíma síðar í mildu og góðu veðri. Stúlkurnar fengu kynningu á staðnum, komu sér fyrir í herbergjunum og fóru svo í ratleik um svæðið. Í hádegismat var grjónagrautur og kynntust stelpurnar bæði borðsöng Vindáshlíðar og helstu venjum í matsalnum. Eftir hádegi hófst var leikurinn „amazing race“ sem fólst í að hóparnir fóru á milli stöðvar og leystu þrautir og verkefni og söfnuðu stigum fyrir sitt herbergi. Síðan hófst íþróttakeppnin sem samanstendur af margskonar hefðbundnum og óhefðbundnum íþróttagreinum og gefur þátttaka hvers og eins stig. Fyrsta íþróttagreinin var húshlaupið sem fólst í að stelpurnar hlupu hringinn í kringum húsið á eins stuttum tíma og þær gátu hver og ein. Og svo var líka sippað af miklum móð. Um kaffileytið var kærkomin hressing, bæði brauð og kökur. En þetta er ævintýraflokkur og því margt með öðrum hætti en hefðbundið er. Ævintýrið hófst óvænt með því að eftir kaffi fór rafmagnið af allri sveitinni. Við höfðum því ekki heitt vatn til að vaska upp, ekki hægt að elda, síminn lá niðri (og nettengingin) og ekki urðu brennóleikið í íþróttahúsinu sem var dimmt. Við héldum þá áfram með íþróttakeppnina og frjálsa leiki. Svo kom að kvöldmat, sem var í raun kvöldhressing sem fólst í grænmetissnakki og brauði. Í kjölfarið var kvöldvaka þar sem mikið var sungið og dansað og margar stelpur tóku þátt í hæfileikakeppni sem dæmd var af sérpöntuðum dómurum (líkt og í sjónvarpinu) J. Eftir kvöldvökuna var farið í leikinn „bænakonuleit“, en bænakona er umsjónarkona hvers hóps sem deilir herbergi. Þessi leikur felst í því að hvert herbergi fær vísbendingar um starfsfólkið til að móta já/nei-spurningar út frá og skiptast síðan á að spyrja starfsmannahópinn. Eftir að allir hópar höfðu fundið sínar bænakonur var kvöldkaffi, sem fólst í grilluðum pylsum úti á hlaði. Í lokin enduðum við daginn inni í setustofu þar sem við heyrðum hugleiðingu út frá Guðs orði. Þegar allar stúlkurnar höfðu þvegið sér og undibúið fyrir svefninn komu bænakonur þeirra inn á herbergin, spjölluðu um atburði dagsins, sögðu jafnvel sögu eða sungu, en kvöldstundinni lauk með bæn. Það voru því þreyttar stúlkur sem sofnuðu fljótt þetta fyrsta kvöld í Vindáshlíð í þessari yndislegu náttúruperlu í Kjósinni.