Þriðjudagur 14. júní 2016
Stúlkurnar voru vaktar klukkan hálfníu á ljúfum nótum. Úti var glampandi sól og ljúf gola. Þær voru fljótar að koma í morgunmat þar sem í boði var kornflex, seríós, súrmjólk og viðeigandi meðlæti og tóku stelpurnar vel til matar síns. Eftir morgunmat var fánahylling og síðan morgunstund. Þá var komið að brennókeppninni milli herbergja en brennó er einn vinsælasti leikurinn hér. Á sama tíma var keppni í húla og „að planka“. Í hádegismat var grænmetispastasúpa og smurt brauð. Eftir hádegi var farið í leikinn „ævintýrahúsið“ þar sem hver hópur er leiddur um svæðið með bundið fyrir augu og hitti fyrir frægar persónur úr teiknimyndum á ólíkum stöðum. Nónhressing var úti í sólinni og áhersla var á að drekka vel af vatni og bera á sig sólarvörn. Síðan tók við brennó, áframhaldandi íþróttakeppni og sturtuferðum. Í kvöldmat voru hamborgarar sem runnu ljúflega niður. Í kjölfarið var kvöldvaka sem fór fram úti í skógi. Stúlkurnar grilluðu sykurpúða, sungu, fengu ávexti og kex og heyrðu hugleiðingu úr Guðs orði. Síðan fóru þær sem vildu niður að læk og burstuðu tennur. Þegar allar voru komnar í náttföt hófst óvænt náttfatapartý með geggjuðu stuði. En síðan var skipt í rólegri gír, lesin var saga og allir fengur ís- eða klakapinna. Þá fór hver hópur með sinni bænakonu inn á herbergi og þar með endaði þessi yndislegi sólríki dagur og lúnar stúlkur lögðust til hvíldar til að safna kröftum fyrir ævintýri morgundagsins.