Miðvikudagur 15. júní 2016
Stúlkurnar sváfu til klukkan níu í morgun og voru röskar á fætur. Úti var sól og heiður himinn en nokkur gola. Eftir morgunmat var morgunstund með sögu úr Biblíunni, söngvum og síðan auglýsingum um dagskrána framundan. Svo tók við brennó og íþróttakeppni dagsins sem fólst í stígvélasparki og broskeppni, en hún gengur út á að leita að breiðasta brosinu. Þá fóru nokkrir hópar í sturtu. Í hádegismat voru kjötbollur með brúnnu sósu, kartöflumús, grænmeti og rabbabarasultu. Alger klassísk sem sló í gegn. Eftir hádegi var haldin keppnin Vindáshlíð-next-top-model þar sem hvert herbergi fékk svartan plastpoka og bleikt efni og áttu að hanna föt á sitt módel, búa þau til og klæða eina stúlkuna upp. Síðan var tískusýning með viðeigandi tónlist. Eftir kaffi hélt íþróttakeppnin áfram og fleiri hópar fóru í sturtu. Í kvöldmat var svo pylsupasta sem rann ljúflega niður. Strax að honum loknum hófst ævintýraleikurinn lífsgangan. Hann fólst í að hver og ein stúlka fór nokkra leið um skóginn með bundið fyrir augu en hélt alltaf í band sér til halds og trausts. Á leiðinni hitti hún og heyrði í ýmsum sem vildu styðja hana eða freista hennar og að lokum komust þær allar klakklaust í gegn, reynslunni ríkari og kjarkmeiri. Í lok dags var kvöldhressing með ávöxtum og kexi og svo kvöldstund með Guðs orði og bæn. Það voru því sælar en þreyttar stúlkur sem fóru í rúmið eftir viðburðaríkan dag á þessum dásamlega stað.