Fimmtudagur 15. júní 2016

Við vöknuðum við léttskýjaðan himinn og hlýja golu í morgun. Eftir hefðbundin morgunverk eins og þvo sér, bursta tennur og greiða hár komu þær í morgunmat sem að þessu sinni var veglegri en hina morgnana því allar stúlkur sem hafa sofið 3 nætur í Vindáshlíð í flokki eru orðnar Hlíðarmeyjar. Eftir fánahyllingu og morgunstund með Biblíufræðslu var útivist, brennó og íþróttakeppni. Að þessu sinni var áframhald af stígvélasparki og svo armbeygjukeppni. Þá héldu áfram sturtuferðir og brennóleikir.  Í hádegismat var spagetti og tilheyrandi. Það var frábært að sjá hvað þær borðuðu vel. Eftir hádegi var survivor-leikur sem fólst í að hópar fóru á milli stöðva og leystu þrautir. Eftir kaffi var svo frjáls tími, bæði leikir úti og inni. Í kvöldmatinn var súpa með miklu af smurðu brauði og í kjölfarið hófst æsispennandi leikur þar sem stúlkurnar reyndu að smygla Biblíum utan úr skógi inn í hús. Hindranir  þeirra voru svartklæddar verur sem stukku fram úr fylgsnum sínum víða um svæðið. Leiknum lauk svo þegar rigningin kom til okkar. Eftir kvöldhressingu og kvöldstund með hugleiðingu úr Guðs orði fóru lúnar en glaðar stúlkur í háttinn.