Föstudagur 17. júní 2016

Stúlkurnar fengu að sofa til klukkan tíu í morgun og má segja að þær hafi langflestar þurft á því að halda. Þungbúið veður var í fyrstu en birti er leið yfir hádegi. En við vorum í hátíðarskapi og strax í morgun voru nokkrar búnar að skreyta herbergi sín í tilefni af þjóðhátíðardeginum með íslenska fánanum. Morgunmatur og fánahylling áttu sinn fasta sess og svo morgunstund. Í kjölfarið fór fram úrslitakeppnin í brennó milli herbergja. Í hádegismat var ávaxtasúrmjólk og margskonar smurt brauð sem þakklátir magar tóku fúslega við enda þurfa kraftmiklar stelpur mikla næringu. Síðan hófst 17. júní skrúðgangan sem endaði í Hallgrímskirkju hér í Vindáshlíð, en þar var fáninn hylltur sérstaklega, fjallkonan flutti ljóð og ýmsar furðulegar verur gerðu vart við sig. Sumar þeirra skreyttu svo andlit og aðrar stýrðu leikjum. Í nónhressingu var risakaka skreytt mynd af Vindáshlíð og nóg að drekka. Hún hvarf eins og dögg fyrir sólu. Síðan hófst Vinagangur, en sá leikur fólst í að stúlkurnar undirbjuggu margskonar þjónustu á sínu herbergi sem aðrar stúlkur komu og nutu. Þá klæddu þær sig allar upp og snyrtu því veislumatur hófst með pompi og prakt. Stúlkurnar gengu prúðbúnar og sætar inn í skreyttan veislusal þar sem á borð voru bornar heimagerðar pizzur með margskonar áleggi. Þar voru afhent verðlaun fyrir öll helstu afrek einstaklinga og herbergja, bæði í íþróttum og umgengni. Eftir frágang hófst kvöldvakan sem samanstóð af leikritum, auglýsingum og sjónvarpi Vindáshlíðar, allt saman heimagert grín með söng og gleði. Eftir langa kvöldvöku settustu stúlkurnar í setustofu og hlustuðu á hugleiðingu úr Guðs orði, gæddu sér svo á ís- eða klakapinnum. Að endingu fóru þær sem vildu út í læk að bursta tennur. Það voru því sælar og glaðar stúlkur sem gengu frekar seint til náða eftir viðburðaríkan dag.