Laugardagur 18. júní 2016

Í dag er síðasti dagurinn í þessum flokki. Stúlkurnar voru vaktar klukkan níu  og fengu morgunmat og hylltu síðan fánann okkar.  Að því loknu fór fram úrslitaleikurinn í brennó milli sigurliðsins og starfsfólks. Leikurinn var lengi jafn en eftir hörku keppni sigruðu foringjar sigurlið stúlknanna. Þá var keppni milli foringja og alls flokksins og þann burstuðu stelpurnar. Úr íþróttahúsinu fóru stúlkurnar á fótboltavöllinn þar sem afhentar voru viðurkenningar í einstaklingsíþróttum og hver hópur fékk glaðning frá Vindáshlíð, söngbók Vindáshlíðar og armband með áletruðu nafni Vindáshlíðar. Síðan sneru þær sér að því að pakka öllu sínum pjönkum og báru farangurinn út. Hádegismatur fór fram úti og gæddu stúlkurnar sér á gómsætum grilluðum pylsum. Eftir hádegismat var farið í leiki og hófst svo lokastundin klukkan hálf tvö í kirkjunni okkar hér. Þegar henni var lokið var boðið upp á hressingu, svo enginn færi nú svangur heim. Allt er gott sem endar vel og nú kveðjum við Vindáshlíð að sinni. Þessi vika hefur verið einstök upplifun í alla staði og hafa stúlkurnar, bæði yngri og eldri, verið glaðlegur og skemmtilegur hópur. Við þökkum fyrir samveruna og biðjum Guð að blessa hverja og eina, og vonum að minningin um Vindáshlíð og orð Guðs sem þar er boðað búi í hjörtum okkar allra.

Með góðri kveðju og þökk fyrir að hafa fengið að vera með ykkur,

Auður Pálsdóttir,
forstöðukona