Mánudagur 20. júní 2016

Við ókum í tveimur rútum frá þjónustumiðstöð KFUM og KFUK á Holtavegi kl. 9 og renndum í hlað í Vindáshlíð tæpum klukkutíma síðar í þéttri en mildri rigningu. Stúlkunum var skipt í herbergi svo allar fengju að vera með vinkonum sínum. Þá fengu þær kynningu á staðnum, komu sér svo betur fyrir í herbergjunum. Í hádegismat var blómkálssúpa og kynntust stelpurnar bæði borðsöng Vindáshlíðar og helstu venjum í matsalnum. Eftir hádegi var svo farið í ratleik um svæðið þótt nokkuð rigndi en eftir kaffi hóst svo íþróttakeppnin sem samanstendur af margskonar hefðbundnum og óhefðbundnum íþróttagreinum og gefur þátttaka hvers og eins stig fyrir herbergið. Fyrsta íþróttagreinin var kraftakeppni sem fólst í að stúlkurnar héldu á útréttum höndum á eins lítra vatnsflösku. Þá hófst líka brennókeppnin sem er milli herbergja. Í kvöldmat var grjónagrautur sem rann ljúflega niður með smurðu brauði. Í kjölfarið var kvöldvaka þar sem mikið var sungið og þrjú herbergi sáu um leikrit og leiki. Kvöldhressing beið okkar í matsalnum, appelsínur, epli og kex og í lokin enduðum við daginn inni í setustofu þar sem við heyrðum hugleiðingu út frá Guðs orði. Þegar allar stúlkurnar höfðu þvegið sér og undibúið fyrir svefninn komu bænakonur þeirra inn á herbergin, spjölluðu um atburði dagsins, sögðu jafnvel sögu eða sungu, en kvöldstundinni lauk með bæn. Það voru því þreyttar stúlkur sem sofnuðu fljótt þetta fyrsta kvöld í Vindáshlíð í þessari yndislegu náttúruperlu í Kjósinni.