Þriðjudagur 21. júní 2016

Stúlkurnar voru vaktar klukkan átta í morgun á ljúfum nótum, þ.e. þær sem ekki þegar voru komnar á stjá. Úti var glampandi sól og ljúf gola. Þær voru fljótar að koma í morgunmat þar sem í boði var kornflex, seríós, súrmjólk og rjúkandi heitur hafragrautur og viðeigandi. Það var gaman að sjá hve vel stelpurnar tóku til matar síns. Eftir morgunmat var fánahylling og síðan morgunstund, en á henni syngjum við og heyrum sögur úr Biblíunni. Þá var komið að brennókeppninni milli herbergja en brennó er einn vinsælasti leikurinn hér. Á sama tíma var íþróttakeppnin sem fólst í broskeppni og var mælt hver hefði breiðasta brosið. Í hádegismat voru pítur með kjöti og grænmeti eftir lyst hverrar og einnar. Eftir hádegi var gönguferð að  fossinum Brúðarslæðu sem er hér í nágrenninu. Það var vel heppnuð ferð og nutu stelpurnar góða veðursins og félagsskapar hverrar annarra. Þá virðast flugur líka njóta félagsskapar okkar hérna í Vindáshlíð en nokkuð er um flugnabit. Í kaffitímanum voru eins og venjulega bornar á borð tvær tegundir af heimabökuðu góðgæti. Eftir kaffið var Hlíðarhlaup sem fólst í að hlaupið var frá skálanum niður að hliði. Hér gilti þátttakan eins og í öðrum íþróttagreinum en hver þátttakandi færði herbergi sínu eitt stig. Rétt fyrir kvöldmat kom hitaskúr sem bleytti vel í þeim sem voru úti að leika. Í kvöldmat var svo pasta með pylsubitum og grænmetissalat að vild. Í kjölfarið var kvöldvaka þar sem fjögur herbergi sýndu leikþætti og höfðu leiki. Eftir kvöldhressingu var hugleiðing í setustofunni og síðan fóru þær sem vildu niður að læk og burstuðu tennur. Það þykir alveg sérstakt sport. Bænakonur komu svo inn á herbergin og áttu notarlega stund með sínum stúlkum. Þar með endaði þessi yndislegi bjarti dagur og lúnar stúlkur lögðust til hvíldar.