Miðvikudagur 22. júní 2016

Stúlkurnar sváfu til klukkan níu í morgun og voru röskar á fætur. Úti var sól og heiður himinn en nokkur gola. Eftir morgunmat var morgunstund með sögu úr Biblíunni, söngvum og síðan auglýsingum um dagskrána framundan. Svo tók við brennó og íþróttakeppni dagsins sem fólst húshlaupi, en felst í að hlaupa hringinn í kringum skálann á sem stystum tíma. Þá fóru nokkrir hópar í sturtu. Í hádegismat voru hamborgarar, alger klassísk sem sló í gegn. Eftir hádegi var farið í réttir hér sunnan við þjóðveginn og stúlkurnar dregnar í dilka ásamt því að farið var í leiki. Eftir kaffi hélt íþróttakeppnin áfram og fleiri hópar fóru í sturtu, en allmargar hlustuðu á leikinn í útvarpinu úti á hlaði. Brutust út mikil fagnaðarlæti þegar leiknum lauk og ljóst að Ísland hafði unnið. Í kvöldmat var svo skyr í fánalitunum ásamt smurðu brauði sem rann ljúflega niður. Þegar búið var að vaska upp og ganga frá hófst kvöldvakan sem var fjörug og með fjölmörgum leikritum og leikjum frá fjórum herbergjum. Eftir kvöldhressingu með banönum, appelsínum og kexi héldum við okkar lokastund dagsins í setustofunni. Þá fóru stúlkurnar og undirbjuggu sig fyrir nóttina en í miðjum klíðum komu foringjar syngjandi og dansandi inn í herbergjaganginn og sóttu allar stelpur í náttfatapartý. Dúndrandi tónlist og dans stóð nokkra stund og síðan heimsóttu þær uppáklæddar furðuverur sem voru með leikrit. Í lokin fengu stúlkurnar ís og fyrir þær var lesin saga. Það voru því sælar en þreyttar stúlkur sem fóru í rúmið eftir viðburðaríkan dag á þessum dásamlega stað.